„Það verður með einhverjum ráðum að greiða úr þessu upplausnarástandi, bæði því sem snýr að samfélaginu fyrir vestan og eins skilningi stofnana og almennings á lögum um mat á umhverfisáhrifum,“ sagði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra um stöðuna sem upp er komin varðandi laxeldi á Vestfjörðum.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísaði í gær frá kröfu laxeldisfyrirtækjanna Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm hf. um að fresta réttaráhrifum fyrri úrskurða nefndarinnar um að fella úr gildi starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrirtækjanna. Komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að hún hefði ekki heimild til að fresta réttaráhrifum eigin úrskurða.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag bendir Kristján Þór á að úrskurðarnefndin hefði beint atriðum að umhverfisráðherra og sjávarútvegsráðherra. Það þyrfti að meta yfir helgina. Hann benti á að það væri réttur almennings að fara með ágreiningsmál fyrir dómstóla.