Tíu árum eftir að íslenska fjármálakerfið hrundi eru enn sex sakamál í gangi fyrir íslenskum dómstólum sem ekki hefur fengist niðurstaða í. Fyrrverandi stjórnendur í öllum viðskiptabönkunum þremur hafa hlotið dóm, sem og fjöldi annarra starfsmanna bankanna. Málin hafa mörg hver verið gríðarlega umfangsmikil og var sérstakt saksóknaraembætti sett á laggirnar til að skoða þessi mál á sínum tíma, embætti sérstaks saksóknara. Það embætti gekk síðar inn í embætti héraðssaksóknara sem var stofnað árið 2016.
mbl.is ætlar við þessi tímamót að fara yfir þessi dómsmál, sem í daglegu tali kallast hrunmál, hver var niðurstaða þeirra sem þegar hefur verið lokið og hvar hin eru stödd í dómskerfinu.
Embætti héraðssaksóknara lauk fyrr á þessu ári við að rannsaka öll þau sakamál sem tengjast bankahruninu árið 2008. Þannig er ekkert mál lengur í ákærumeðferð hjá embættinu, en það þýðir að búið er að gefa út allar ákærur í þeim málum sem upp hafa komið. Ólíklegt verður þó að teljast að síðustu eiginlegu hrunmálin klárist fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári og líklega síðar. Á síðasta ári felldi héraðssaksóknari niður síðustu 17 málin sem voru í ákærumeðferð eða í rannsókn.
Upphaflega var stofnað embætti sérstaks saksóknara árið 2009, en það varð svo hluti af embætti héraðssaksóknara í ársbyrjun 2016. Í heildina hefur embættið tekið til skoðunar 202 mál. Það skal þó tekið fram að eitt mál þýðir ekki endilega ein ákæra og sameinuðust mál oft bæði í ákæru eða niðurfellingu eftir því sem rannsókn miðaði áfram.
Af þessum 202 málum var ákært í 23 málum. Í 17 þeirra er komin lokaniðurstaða Hæstaréttar og var sakfellt að hluta eða fullu í 13 málum. Í fjórum málum var sýknað. Þá eru sex mál enn í gangi í réttarkerfinu, en það eru markaðsmisnotkunarmál Glitnis, Aurum-holding málið, umboðssvikamál tengt einkahlutafélaginu Hreiðar Már Sigurðsson ehf., Marple-málið, CLN-málið (einnig þekkt sem Chesterfield-málið) og Stím-málið.
Af þessum sex málum eru fjögur síðastnefndu sem áður hefur verið dæmt í, en voru ógild í Hæstarétti. Til viðbótar var dæmt í fyrstnefnda málinu á fyrri hluta ársins og bíður það nú þess að komast á dagskrá Landsréttar. Þá er mál Hreiðars Más nú fyrir héraðsdómi í fyrsta skipti.
Skipta má málunum 23 sem ákært var fyrir gróflega í fjóra flokka. Mál sem tengjast hverjum af þremur viðskiptabönkunum og svo önnur mál. Til viðbótar eru svo fjögur önnur mál sem teljast ekki beint til hrunmála hjá embættinu, en hafa oft verið í umræðunni sem slík.
Í fjórum málum sem tengjast Landsbankanum var ákært, en búið er að dæma í öllum þeirra í bæði héraðsdómi og Hæstarétti. Í þremur þeirra var sakfellt að hluta eða öllu leyti, en í einu þeirra var sýknað.
Fjárdráttarmál: Í maí árið 2013 hlaut Haukur Þór Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs bankans, 18 mánaða dóm fyrir fjárdrátt fyrir að hafa millifært tæplega 120 milljónir af reikningi í eigu NBI holding Ltd., félags á vegum bankans, inn á eigin bankareikning. Daginn eftir millifærði hann svo sömu upphæð yfir á annan bankareikning í sinni eigu. Málið fór þrisvar fyrir héraðsdóm en dómurinn var tvisvar ógiltur af Hæstarétti og vísað í hérað að nýju áður en endanlegur dómur féll.
Ímon-málið: Í október árið 2015 dæmdi Hæstiréttur Sigurjón Þ. Árnason, fv. bankastjóra Landsbankans, í þriggja ára og sex mánaða fangelsi, Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, í 18 mánaða fangelsi og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumann verðbréfamiðlunar bankans, í 9 mánaða fangelsi í svokölluðu Ímon-máli. Voru þau fundin sek um ýmist umboðssvik eða markaðsmisnotkun. Málið er söluhlið stóra markaðsmisnotkunarmáls sama banka, en málinu var skipt upp, ólíkt því sem gert var í tilfellum Kaupþings og Glitnis.
Markaðsmisnotkunarmál Landsbankans: Í febrúar 2016 var svo dæmt í stóra markaðsmisnotkunarmáli bankans, en þar var sjónum beint að kauphlið málsins. Var Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir hlut sinn, Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin fjárfestinga bankans, var dæmdur í 2 ára fangelsi og Júlíus S. Heiðarsson, fyrrverandi starfsmaður eigin fjárfestinga, fékk 1 árs fangelsi. Sindri Sveinsson, fyrrverandi starfsmaður eigin fjárfestinga bankans fékk níu mánaða dóm.
Kaupréttarmálið: Rúmlega mánuði siðar sýknaði Hæstiréttur þau Sigurjón og Sigríði Elínu í kaupréttarmálinu svokallaða, en það var stundum kennt við Empanage. Hafði verið ákært fyrir umboðssvik við veitingu sjálfskuldarábyrgðar á lánasamningum tveggja aflandsfélaga við Kaupþing, en félögin héldu utan um kauprétti starfsmanna Landsbankans. Heildarábyrgðin hljóðaði upp á 6,8 milljarða.
Fimm mál tengjast Kaupþingi sem ákært var í. Þau sem mest hafa verið umtöluð eru svokallað Al Thani-mál og stóra markaðsmisnotkunarmál bankans, en það síðarnefnda er eitt umfangsmesta dómsmál sem hefur komið til kasta íslenskra dómstóla, ef ekki það umfangsmesta. Þá er eitt mál sem bíður þess að verða tekið fyrir í Landsrétti eftir að hafa verið ógilt í Hæstarétti og dæmt á ný í héraði, annað sem var ógilt í Hæstarétti og var vísað frá héraðsdómi, en sú frávísun bíður ákvörðunar Landsréttar og að lokum eitt mál þar sem aðalmeðferð fyrir héraðsdómi er eftir.
Al Thani-málið: Eitt þeirra hrunamála sem hafa fengið hvað mesta fjölmiðlaumfjöllun, bæði meðan á meðferð málsins stóð yfir fyrir dómstólum og einnig síðar meir. Í málinu voru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg og Ólafur Ólafsson, fjárfestir og einn aðaleigandi bankans, ákærðir og fundnir sekir um umboðssvik eða hlutdeild í umboðssvikum og fyrir markaðsmisnotkun með þætti sínum í sölu á 5,01% hlut í bankanum til Mohameds Al Thani, sjeiks frá Katar, rétt fyrir hrun. Má segja að málið sé tengt söluhlið þeirrar markaðsmisnotkunar sem síðar var dæmt fyrir Hafa þeir meðal annars farið fram á endurupptöku málsins en verið neitað um það, en nú liggur málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu eftir að þeir kærðu niðurstöðu Hæstaréttar. Opnuðu fjórmenningarnir meðal annars vefinn dagsljos.is vegna málsins og annarra sem þeir voru ákærðir í.
Markaðsmisnotkunarmál Kaupþings: Umfangsmesta hrunmálið þegar horft er til tímalengdar fyrir dómstólum. Aðalmeðferð málsins tók samtals um fimm vikur, en sjö voru ákærðir í málinu. 60 vitni mættu fyrir dóminn og tók málflutningur saksóknara og verjenda nokkra daga í heildina. Þeir sem ákærðir voru í málinu voru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings, Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, starfsmenn eigin viðskipta, Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána Kaupþings, og Björk Þórarinsdóttir, fyrrverandi lánafulltrúi í lánanefnd bankans. Voru þau öll fundin sek í Hæstarétti, en í tilfelli Magnúsar og Bjarkar hafði héraðsdómur sýknað þau eða vísað ákæru frá. Var bæði sakfellt fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í málinu, en bæði var tekið á kauphlið og söluhlið markaðsmisnotkunar í málinu.
Marple-málið: Ákært var fyrir samtals 8 milljarða lánveitingu Kaupþings til félagsins Marple sem var í eigu fjárfestisins Skúla Þorvaldssonar sem var einn af stærstu viðskiptavinum bankans fyrir hrun. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, voru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik í málinu, en Magnús Guðmundsson, forstjóri bankans í Lúxemborg, fyrir hlutdeild í brotunum. Þá var Skúli ákærður fyrir hylmingu og peningaþvott. Voru öll nema Guðný Arna sakfelld í héraði, en Hæstiréttur felldi þá niðurstöðu úr gildi vegna vanhæfis sérfróðs meðdómara, Ásgeirs Brynjars Torfasonar. Um mitt síðasta ár dæmdi héraðsdómur svo aftur í málinu og var niðurstaðan aftur sakfelling allra. Fengu þremenningarnir 6-18 mánaða dóma, en dómur Hreiðars var þyngdur úr sex mánuðum í tólf mánuði, en það er í fyrsta skipti sem farið var umfram hefðbundinn refsiramma í auðgunarbrota. Verður málið líklega tekið fyrir í Landsrétti á komandi mánuðum.
CLN-málið (Chesterfield-málið): Í þessu máli er tekist á um lán sem Kaupþing veitti sex félögum á Bresku-Jómfrúareyjunum upp á samtals 510 milljónir evra til að kaupa lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche bank sem tengd voru skuldatryggingarálagi Kaupþings með það að markmiði að lækka skuldatryggingaálagið. Var hluti lánanna veittur eftir að neyðarlán Seðlabankans var afgreitt rétt fyrir fall Kaupþings. Þeir Hreiðar Már, Sigurður og Magnús voru allir ákærðir í málinu, en þeir voru allir sýknaðir í héraði. Meðan málið beið þess að Hæstiréttur tæki það fyrir kom í ljós að Deutsche bank hefði samið við þrotabú Kaupþings um að greiða 400 milljónir evra til baka, eða stærstan hluta þeirrar upphæðar sem talin var hafa glatast. Við það breyttust forsendur málsins, en saksóknari hafði sagt féð tapað með öllu. Ómerkti Hæstiréttur fyrri niðurstöðu og fór fram á frekari rannsókn ákæruvaldsins. Þegar málið kom fyrir héraðsdóm að nýju var því vísað frá þar sem dómnum þótti ákæruvaldið ekki hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína. Hefur sú niðurstaða verið kærð til efra dómstigs og beðið er niðurstöðu þaðan. Óljóst er því hvort málið verði tekið fyrir að nýju eða hvort úrskurður um frávísun standi.
Hreiðar Már Sigurðsson ehf.: Síðasta hrunmálið sem ákært hefur verið fyrir. Málið er nú til meðferðar hjá héraðsdómi, en í því er Hreiðar Már sakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar hann lét bankann veita einkahlutafélaginu Hreiðar Már Sigurðsson ehf. 574 milljóna króna eingreiðslulán í ágúst 2008. Er hann ákærður fyrir umboðssvik og innherjasvik. Þá er Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, ákærð fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að hafa veitt liðsinni í verki við að koma þeim fram. Aðalmeðferð málsins hefur ekki enn farið fram.
Innherjasvikamál: Í fyrsta hrunmálinu sem tengdist Glitni, sem Hæstiréttur dæmdi í árið 2013, var Friðfinnur Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri millibankamarkaðar í fjárstýringu, dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir innherjasvik með því að hafa selt hlutabréf sín í bankanum fyrir 20 milljónir króna á nokkurra mánaða tímabili árið 2008 þrátt fyrir að hafa búið yfir innherjaupplýsingum í öllum tilvikum er vörðuðu lausafjárstöðu bankans sem hann varð áskynja í starfi sínu.
Vafningsmálið: Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs sama banka, voru í þessu máli sýknaðir af ásökunum um umboðssvik. Hafði þeim verið gefið að sök að hafa samþykkt 102 milljóna evra peningamarkaðslán til Milestone í febrúar 2008. Þremur dögum síðar var lánið greitt upp með öðru láni sem félagið Vafningur fékk. Báðir fengu þeir 9 mánaða dóm í héraðsdómi sem var langt frá því sem ákæruvaldið fór fram á, en dómari gerði meðal annars athugasemd við hvernig ákært var í málinu við málflutningsræðu saksóknara. Hæstiréttur sýknaði svo báða mennina þrátt fyrir að taka undir með ákæruvaldinu um að mennirnir hafi misnotað aðstöðu sína við lánveitinguna. Aftur á móti var skilyrði um fjártjónshættu ekki til staðar, en slíkt er nauðsynlegt til sakfellingar þegar ekki liggur fyrir hvort tjón hafi í raun orðið af háttseminni eins og var í þessu máli.
BK-44-málið: Málið snerist um 3,8 milljarða lán Glitnis til félagsins BK-44 sem var í eigu Birkis Kristinssonar. Voru þeir Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, Elmar Svavarsson, sem var verðbréfamiðlari, og Magnús Arnar Arngrímsson, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, ákærðir og fundnir sekir um að hafa veitt lánið og Birkir fyrir hlutdeild í brotinu. Sagði Hæstiréttur í dómi sínum að brotin væru stórfelld, en mildaði engu að síður dóma yfir mönnunum umtalsvert. Fengu þeir 2 til 4 ára dóm í Hæstarétti en héraðsdómur hafði áður dæmt þá í 4 til 5 ára fangelsi.
Aurum holding-málið: Í málinu var Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var einn aðaleigandi Glitnis, ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum Lárusar Welding og Magnúsar Arnars en til vara fyrir hylmingu og til þrautavara fyrir peningaþvætti og fyrir að hafa á árinu 2008 í krafti áhrifa sinna í Glitni beitt Lárus og Bjarna fortölum og þrýstingi og hvatt til þess, persónulega og með liðsinni Jóns Sigurðssonar, varaformanns stjórnar Glitnis Banka hf., og Gunnars Sigurðssonar, forstjóra Baugs Group, að Lárus og Magnús Arnar samþykktu að veita félaginu FS38 ehf. 6 milljarða króna lán frá Glitni, honum sjálfum og Fons til hagsbóta. Upphaflega sýknaði héraðsdómur alla í málinu, en dómurinn var aftur á móti ógildur af Hæstarétti vegna ummæla sérfróðs meðdómara í málinu sem voru talin gefa tilefni til þess að draga í efa að hann hafi verið óhlutdrægur í garð ákæruvaldsins fyrir uppkvaðningu dómsins. Dómarinn er einnig bróðir athafnarmannsins Ólafs Ólafssonar sem áður hafði verið sakfelldur í dómsmáli sérstaks saksóknara.
Var í kjölfarið öllum dómurum málsins skipt út og hófst aðalmeðferð á ný haustið 2016. Var þá Lárus dæmdur í eins árs fangelsi, Magnús Arnar í tveggja ára fangelsi en þeir Jón Ásgeir og Bjarni sýknaðir. Málinu var áfrýjað og var tekið fyrir í Landsrétti í september og er beðið niðurstöðu. Ríkissaksóknari áfrýjaði þó ekki hlut Bjarna í málinu sem var sem fyrr segir sýknaður.
Stím-málið: Í málinu var Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga hjá Glitni banka þegar hann beitti sér fyrir því að félagið FS37, sem síðar varð Stim, fengi um 20 milljarða króna lán frá bankanum með veði í öllu hlutafé félagsins og bréfum í FL Group sem lánsféð var notað til að kaupa. Lánsféð var einnig notað til að kaupa bréf í Glitni.
Jóhannes Baldursson var ákærður fyrir umboðssvik fyrir að hafa beitt sér fyrir því að fjárfestingasjóðurinn GLB FX, í eigu Glitnis banka, keypti framvirkt skuldabréf í Stím af Saga Capital. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi bankastjóri Saga Capital, var ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að hafa hvatt til þeirra viðskipta og liðsinnt Jóhannesi í þeim. Markmiðið með viðskiptunum hafi verið að tryggja að Saga Capital fengi kröfu sína að fullu bætta.
Eins og nokkur önnur hrunmál hefur þetta mál farið tvær umferðir í héraðsdómi. Voru þremenningarnir allir fundnir sekir í desember 2015 fyrir þátt sinn í málinu. Lárus fékk þá fimm ára dóm, Jóhannes tveggja ára dóm og Þorvaldur 18 mánuði. Hæstiréttur ómerkti dóminn um mitt síðasta ár, en vísað var til þess að Sigríði Hjaltested, dómari í málinu, hefði brostið hæfi til að dæma í málinu. Hafði hún sagt sig frá öðru hrunmáli vegna tengsla þess við fyrrverandi eiginmann sinn og barnsföður, en það mál tengdist einnig Glitni, sem og tvö önnur mál sem maðurinn hafði haft stöðu sakbornings í. Taldi Hæstiréttur þessi tvö mál hliðstæð og því hefði hana skort hæfi sem fyrr segir. Í síðari umferð málsins fyrir héraðsdómi varð niðurstaðan sú sama, tveir dómarar af þremur vildu sakfella þremenningana, en einn dómari vildi sýkna þá. Var málinu áfrýjað og bíður nú afgreiðslu Landsréttar.
Markaðsmisnotkunarmál Glitnis: Sambærilegt við markaðsmisnotkunarmál hinna bankanna þá horfir saksóknari hér til bæði kaup- og söluhliðar í tengslum við að markaðsmisnotkun með því að halda hlutabréfavirði uppi. Var málið tekið fyrir í héraðsdómi í janúar og febrúar á þessu ári og féll dómur í byrjun mars. Fimm voru ákærðir í málinu, þeir Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans, auk Jónasar Guðmundssonar, Valgarðs Más Valgarðssonar og Péturs Jónassonar sem voru starfsmenn eigin viðskipta bankans. Voru þeir allir fundnir sekir. Lárusi var ekki gerð refsing þar sem hann var í refsihámarki vegna fyrri mála, en Jóhannes var dæmdur í 12 mánaða fangelsi til viðbótar við fyrri dóma upp á samtals 5 ár. Þá fengu þeir Jónas, Valgarður og Pétur skilorðsbundna dóma. Fékk Jónas 12 mánuði, Valgarð 9 mánuði og Pétur 6 mánuði.
Voru þeir fundnir sekir um markaðsmisnotkun með langvarandi og ólögmætri íhlutun í gangverki verðbréfamarkaðarins þannig að gengi bréfa Glitnis stjórnaðist ekki af markaðslögmálum. Þá var Lárus auk þess fundinn sekur um umboðssvik í málinu.
Baldur Guðlaugsson: Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, var í fyrsta hrunmálinu sem tekið var fyrir í dómstólum, fundinn sekur um innherjasvik og brot í opinberu starfi með því að hafa selt hlutabréf sín í Landsbankanum dagana 17. og 18. september árið 2008, um hálfum mánuði fyrir hrun bankanna. Var hann árið 2011 dæmdur í héraðsdómi tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi og voru 192 milljónir gerðar upptækar sem var söluandvirði hlutabréfanna. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðuna ári síðar. Auk þess að vera ráðuneytisstjóri sat Baldur í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Í dóminum sagði að Baldur hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar hann seldi bréfin í bankanum.
Exeter-málið: Þeir Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, og Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, voru í málinu dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti fyrir umboðssvik. Styrmir Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, var einnig ákærður í málinu fyrir hlutdeild í umboðssvikum. Hæstiréttur vísaði hans hluta hins vegar aftur í hérað. Eftir að héraðsdómur sýknaði hann sneri Hæstiréttur þeim dómi hins vegar við í annarri umferð og dæmdi hann í eins árs fangelsi. Voru þeir fundnir sekir um að hafa lagt á ráðin um að fé yrði greitt úr sjóðum Byrs sparisjóðs til að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í október 2008.
Exista-málið: Í þessu máli voru þeir Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður eignarhaldsfélagsins Exista, og Bjarnfreður Ólafsson hæstaréttarlögmaður dæmdir fyrir brot á lögum um hlutafélög. Lýður var fundinn sekur um að hafa sem stjórnarmaður í öðru einkahlutafélagi greitt Exista minna en nafnverð fyrir 50 milljarða nýrra hluta í félaginu, en greitt var með bréfum í þriðja einkahlutafélaginu sem metið hafði verið á einn milljarð. Hlaut Lýður átta mánuði, þar af fimm skilorðsbundna, og Bjarnfreður sex mánuði skilorðsbundna. Þá var Lýði gert að greiða tvær milljónir í sekt og Bjarnfreður missti málflutningsréttindi í eitt ár.
VÍS-málið: Lýður Guðmundsson, þáverandi stjórnarformaður VÍS og Exista, og Sigurður Valtýsson, þáverandi stjórnarmaður í VÍS og forstjóri Exista, voru í þessu máli sýknaðir í héraðsdómi, en þeir höfðu verið ákærðir fyrir brot á lögum um hlutafélög og umboðssvik. Náði ákæran meðal annars til félaga sem VÍS hafði veitt lán árið 2009, en félögin voru í eigu Sigurðar og Lýðs. Einnig var um að ræða kaup á skuldabréfum frá tengdum aðilum sem áttu að vera fyrir utan fjárfestingastefnu VÍS. Héraðsdómur taldi hins vegar að ekki væri sýnt fram á að þeir hefðu látið VÍS veita lánin eða kaupa skuldabréfin gegn neitun beggja. Ríkissaksóknari ákvað í framhaldinu að áfrýja málinu ekki.
Milestone-málið: Í Milestone-málinu var tekist á um lán sem Milestone, fjárfestingafélag bræðranna Karls og Steingríms Wernerssona, veitti og notað var til að fjármagna kaup bræðranna á hlutafé systur þeirra, Ingunnar, í Milestone. Voru þeir bræður og Guðmundur Ólason, sem var framkvæmdastjóri félagsins, ákærðir fyrir umboðssvik. Þá voru einnig þrír endurskoðendur hjá KPMG ákærðir vegna málsins. Héraðsdómur sýknaði þau öll sex, en Hæstiréttur sneri dóminum við og dæmdi Karl í þriggja og hálfs árs fangelsi, Steingrím í tveggja ára fangelsi og Guðmund í þriggja ára fangelsi. Endurskoðendurnir Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson voru dæmd í níu mánaða fangelsi en fullnusta refsinganna fellur niður haldi þau skilorð í tvö ár. Þá voru þau Margrét og Sigurþór svipt löggildingu til endurskoðunarstarfa í sex mánuði. Í framhaldi af málinu voru þeir bræður og Guðmundur dæmdir til að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða vegna brotanna. Hafa þremenningarnir allir verið lýstir gjaldþrota eftir að refsidómur í málinu féll. Í febrúar á þessu ári var félagið Aurláki, sem er í eigu Karls, dæmt til að greiða 970 milljónir vegna sölunnar á lyfjaversluninni Lyfjum og heilsu sem seld var frá Milestone til Aurláka. Lyf og heilsa var hins vegar komið í eigu sonar Karls fyrr á árinu.
SPRON-málið: Stjórnarmenn sparisjóðsins SPRON og fyrrverandi sparisjóðsstjóri voru ákærð fyrir umboðssvik með því að hafa stefnt fé bankans í verulega hættu með því að lána tveggja milljarða peningamarkaðslán til Exista án trygginga. Stjórnin samþykkti lánveitinguna um mánaðarmótin september/október 2008. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur sýknuðu alla hina ákærðu, stjórnarmennina Ara Bergmann Einarsson, Jóhann Ásgeir Baldurs, Margréti Guðmundsdóttur og Rannveigu Rist og Guðmund Örn Hauksson sparisjóðsstjóra. Í dómunum sagði meðal annars að ekkert hafi komið fram um að óheimilt væri að veita umrætt lán. Þá sagði Hæstiréttur að svo virðist vera sem stjórnarmenn hafi einmitt ekki látið hjá líða að afla upplýsinga um fjárhagsstöðu Exista, heldur þvert á móti hafi stjórnin byggt ákvörðun sína á nýjustu upplýsingum.
SpKef-málið: Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, var ákærður og fundinn sekur um umboðssvik í málinu. Hafði hann verið ákærður fyrir að misnota aðstöðu sína með lánveitingum til einkahlutafélaga fyrir tæpar átta hundruð milljónir. Geirmundur hafði áður verið sýknaður í héraði í málinu, en Hæstiréttur sneri málinu við og dæmi hann í 18 mánaða fangelsi. Hafði hann meðal annars samþykkt lánveitingar án þess að áhættu- eða greiðslumat lægi fyrir eða að endurgreiðsla væri tryggð með nokkrum hætti.
Til viðbótar þessum málum eru tvö önnur mál stundum talin með, en það er FL-málið (Sterling-málið) þar sem Hannes Smárason, stjórnarformaður FL Group, var ákærður fyrir fjárdrátt fyrir millifærslu upp á þrjá milljarða af bankareikningi FL Group yfir á eignarhaldsfélagið Fons. Tengist málið viðskiptum FL Group með flugfélagið Sterling, en á sjö mánuðum hafði verðmiði félagsins hækkað um 11 milljarða. Fyrrverandi forstjóri félagsins hætti í kjölfar þess að upp komst um millifærsluna, en á svipuðum tíma hættu einnig sex stjórnarmenn í félaginu. Aldrei kom skýring á þessari millifærslu og voru engin lánaskjöl tengd þessu. Hannes gat heldur ekki gefið skýringar á millifærslunni. Héraðsdómur sýknaði Hannes og Hæstiréttur féllst á að fella málið niður, þar sem mikil töf varð á málinu, meðal annars var ekki dæmt í því fyrr en sjö árum eftir að rannsókn hófst og ellefu árum eftir að millifærslan var gerð, árið 2005. Þar sem um er að ræða millifærslu svo langt fyrir hrunið hefur málið ekki flokkast beint með hrunmálunum.
Að lokum er það Aserta-málið, en það kom upp eftir hrunið og þegar gjaldeyrishöftin höfðu verið sett á. Voru fjórir men, þeir Karl Löve Jóhannsson, Gísli Reynisson, Markús Máni Michaelsson Maute og Ólafur Sigmundsson, sýknaðir af ákæru um meint brot á lögum um gjaldeyrisviðskipti. Eftir að héraðsdómur sýknaði þá ákvað ríkissaksóknari að falla frá áfrýjun. Nýjasta vending málsins kom í vikunni, en þá hafði héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu í tveimur aðskyldum málum að Gísli fengi 1,4 milljón króna skaðabætur frá ríkinu vegna ummæla aðstoðarríkissaksóknara á meðan dómstóllinn hafnaði kröfu Karls Löve í sambærilegu máli. Verður þeim dómum líklega áfrýjað.