Fuglalíf í hættu vegna berjaskorts

Brynjólfur biðlar til fólks að byrja að fóðra fuglana fyrr …
Brynjólfur biðlar til fólks að byrja að fóðra fuglana fyrr og fóðra þá meira í vetur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skortur á reyniberjum vegna vætu- og kuldatíðar gæti haft áhrif á fuglastofna sem treysta á berin sem fæðu og gæti valdið því að sumir þeirra komist ekki úr landi fyrir veturinn. Brynjólfur Jónsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands, segir að almenningur geti hjálpað til með því að byrja að fóðra fuglana fyrr og fóðra þá meira yfir veturinn.

„Það eru engin reyniber í bænum og sjálfsagt víðar, líklega vegna samspils kulda og rigningar. Reyniberin hafa gjörsamlega misfarist,“ segir Brynjólfur, en fuglarnir geti þó gætt sér á runnaberjum.

Hann segir skógarþrastastofninn líklegan til að minnka í vetur, auk þess sem þetta geti komið til með að hafa áhrif á starra og svartþröst. „Mikill hluti skógarþrasta fer úr landi og þetta á kannski fyrst og fremst eftir að koma niður á þeim. Það er ekki víst að allir komist yfir hafið, af því þeir eru vanir að vera búnir að fita sig á reyniberjum í bæjum og borg. Þetta mun væntanlega valda einhverri stofnsveiflu.“

„Þeir fuglar sem eftir eru yfir veturinn eru svo sem farnir að kunna að bjarga sér. Engu að síður eru þessar þrjár tegundir mikið í berjum. Það eina sem hægt er að koma til skila er að fólk þurfi þá kannski að fóðra þessa fugla fyrr og meira í vetur, þá sem eru hérna,“ segir Brynjólfur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka