Gestir þjóðmálaþáttarins Þingvellir á útvarpsstöðinni K100 í dag verða þau Agnes Agnarsdóttir sálfræðingur, Óttar Guðmundsson geðlæknir og Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. Þau munu ræða við Pál Magnússon, stjórnanda þáttarins, um málefni öryrkja.
Páll vakti athygli á því á Alþingi fyrir skömmu að 30% öryrkja á Íslandi, þ.e. þeir sem eru metnir með 75% örorku eða meira, eru ungt fólk sem er innan við fertugt. Hlutfallið er tvöfalt hærra hérlendis en á hinum Norðurlöndunum.
Öryrkjum á Íslandi með meira en 75% örorkumat fjölgar um 1.200 til 1.800 á hverju ári. Árið 2016 var nýgengi örorku í fyrsta skipti meira en náttúruleg fjölgun á vinnumarkaði hér á landi. Hlutfallsleg fjölgun öryrkja er mest meðal ungra karla á aldrinum 20 til 30 ára með geðraskanir.
Í þættinum verður því velt upp hvort ungir karlmenn á Íslandi séu í raun og veru tvöfalt líklegri til að þjást af geðröskunum heldur en jafnaldrar þeirra á hinum Norðurlöndunum eða hvort eitthvað sé að greiningarkerfinu hérlendis. Einnig verður velt því upp hvað sé hægt að gera til að laga ástandið.
Þátturinn Þingvellir er á dagskrá alla sunnudagsmorgna klukkan 10 á útvarpsstöðinni K100.