Svikapóstur sem boðar fólk í skýrslutöku

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar fólk við svikapóstum sem látnir eru líta út fyrir að komi frá henni þar sem viðtakandinn er boðaður í skýrslutöku í lok þessa mánaðar. Þeir sem fá póstinn eru síðan beðnir í honum um að smella á vefslóð sem minnir á vef lögreglunnar.

„Svikapóstur sem er látinn líta út fyrir að koma frá lögreglunni virðist vera að fara mjög víða í kvöld. Við biðjum fólk að opna póstinn alls ekki, en hann kemur að sjálfsögðu ekki frá lögreglu. Slóðin sem fólk er beðið að opna er stafsett svipað og vefsvæði lögreglu, en er annar vefur og er mögulega sýktur af vírus,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni, en slóðin sem um ræðir er undir léni þar sem síðara L-ið í orðinu lögreglan er stórt I.

Mikilvægt er að sögn lögreglunnar að sem flestir vari sig á þessum svikapóstum og opni alls ekki vefslóðina eða viðhengi sem kunna að fylgja þeim. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni en að hennar sögn hafa afar margir þegar haft samband við hana vegna málsins. Árásin virðist, að sögn lögreglunnar, vera afar vel skipulögð.

Þeir sem smella á slóðina er bent á að slökkva strax á tölvunni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni mun hún koma frekari upplýsingum áleiðis þegar þær liggja fyrir.

Svona lítur svikapósturinn út.
Svona lítur svikapósturinn út. Mynd/Lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert