Stal upplýsingum og breytti nafni áhrifavalds

Tölvuhakkari notaði upplýsingar Thelmu Daggar til að kaupa svikalénið.
Tölvuhakkari notaði upplýsingar Thelmu Daggar til að kaupa svikalénið. mbl.is/Árni Sæberg

Tölvuþrjóturinn sem sendi svikapóst af léninu logreian.is keypti lénið með stolnum upplýsingum áhrifavaldsins Thelmu Daggar Guðmundsen. Thelma er með tæplega 14 þúsund fylgjendur á Instagram og heldur úti vinsælli bloggsíðu. Léninu hefur verið lokað.

„Það var einhver sem hakkaði sig inn á bloggsíðuna hjá mér fyrir nokkrum dögum. Við töldum það hafa verið útkljáð, en síðan kemur þetta í dag,“ segir Thelma Dögg í samtali við mbl.is.

Hún fékk í dag smáskilaboð um að verið væri að reyna að brjótast aftur inn á bloggsíðu hennar og korteri síðar fær hún símtal frá ISNIC, Interneti á íslandi ehf., um að aðgangur hennar hefði verið notaður af svikahrappi til þess að kaupa lénið þaðan sem svikapóstur var sendur í nafni lögreglunnar og fólk var boðað til skýrslutöku. Lögregla varaði fólk við að opna póstinn.

Thelma Dögg Guðmundsen.
Thelma Dögg Guðmundsen. Ljósmynd/Aðsend

„Ég kom alveg af fjöllum þegar það var hringt í mig í dag,“ segir Thelma en hún er með þjónustuaðila sem þjónustar síðuna fyrir hana.

„Mig langar mjög að vita af hverju ég, og af hverju síðan mín varð fyrir valinu,“ segir Thelma sem segist ekki vita til þess að hún eigi sér óvildarmenn. Ljóst er þó að tölvuþrjóturinn braust ekki eingöngu inn á aðgang hennar til að komast yfir upplýsingar til að kaupa blekkingarlénið, heldur breytti hann nafni Thelmu í „Skuggasál“ á bloggsíðu hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert