Spurð út í frétt Morgunblaðsins í gær um deilur á skrifstofu stéttarfélagsins Eflingar í þættinum Silfrinu í Ríkisútvarpinu sagði formaður félagsins, Sólveig Anna Jónsdóttir, að tal um óvinveitta yfirtöku væri út í hött enda hefði hún og stjórnarmeirihluti hennar náð kjöri í lýðræðislegri kosningu. Þeirri fyrstu sem fram hefði farið í félaginu í 18 ár.
Þáttarstjórnandinn, Fanney Birna Jónsdóttir, spurði Sólveigu hvort það væri rétt að átök væru á skrifstofunni líkt og haldið væri fram í frétt Morgunblaðsins en Sólveig Anna vísaði aðeins í yfirlýsingu sem hún og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sendu frá sér í gær. Þar kom fram að nýir stjórnendur teldu starfsmenn félagsins samhentan hóp.
„Þú vilt ekki tjá þig sérstaklega um hvort það sé einhver ágreiningur á skrifstofunni?“ spurði Fanney Birna og Helgi Seljan fréttamaður, sem var einn viðmælenda í þættinum, bætti við og spurði: „Eruð þið að reyna að hrekja þessa konu úr starfi? Og er Gunnar Smári kominn á spenann hjá ykkur? Ég meina, um það snýst málið.“
Helgi vísaði þarna til þess sem kemur fram í frétt Morgunblaðsins að fjármálastjóri Eflingar og bókari hafi verið sendir í ótilgreint veikindaleyfi vegna ágreinings um greiðslu hás reiknings til Öldu Lóu Leifsdóttur, eiginkonu Gunnars Smára Egilssonar formanns Sósíalistaflokksins, en Sólveig Anna situr í félagastjórn flokksins.
Fram kemur í frétt Morgunblaðsins að umræddur reikningur hafi hljóðað upp á eina milljón króna en áður hafi Alda Lóa fengið greiddar fjórar milljónir króna frá Eflingu.
Sólveig brást ekki við þeirri spurningu Helga hvort verið væri að koma fjármálastjóranum úr starfi en hafnaði því að Gunnar Smári væri á spena Eflingar. Hins vegar hefði Alda Lóa tekið að sér verkefni fyrir félagið sem fjallaði um fólkið í stéttarfélaginu.