„Það er alveg ljóst að við tökum þessa skýrslu mjög alvarlega eins og aðrar skýrslur alþjóðasamfélagsins sem komið hafa fram og nýtum okkur þær í okkar stefnumótun og aðgerðum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra í samtali við mbl.is.
Greint var í morgun frá því að í nýrri skýrslu loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, IPCC, að stefni í 3° hlýnun jarðar miðað við núverandi þróun. Skýrslan sé lokaviðvörun vísindamanna. Eigi að takast að halda hlýnun jarðar undir 1,5° sé þörf á „hröðum, víðtækum og fordæmislausum breytingum á öllum hliðum þjóðfélagsins.“ Slíkar aðgerðir verði verulega kostnaðarsamar, en dýrkeyptara verði að gera ekki neitt.
Guðmundur Ingi segir skýrsluna, líkt og fjölda annarra skýrslna sem gefnar hafa verið út á síðustu árum, staðfesta að loftslagsmálin eru stærsta verkefni mannkyns á 21. öldinni.
„Íslensk stjórnvöld munu að sjálfsögðu líta til þessarar skýrslu eins og annarra gagna í sinni vinnu,“ segir hann.
Kynnt var í síðasta mánuði aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda, þar sem gert er ráð fyrir að 6,8 milljörðum verði varið til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum á næstu fimm árum.
Guðmundur Ingi er ekki kominn með skýrslu IPCC í hendur, en segist vera búinn að kynna sér megindrætti hennar. Hann segir athyglisvert að margar þeirra aðgerða sem IPCC leggi til séu þær sömu og íslensk stjórnvöld hafi þegar kynnt í aðgerðaáætlun sinni.
„Þar vil ég sérstaklega nefna orkukerfin,“ segir Guðmundur Ingi. „Við erum með metnaðarfull markmið um að breyta úr notkun mengandi innflutts jarðefnaeldsneytis yfir í innlenda orku. Það rímar mjög vel við áherslurnar sem þarna eru settar. Síðan má líka nefna kolefnisbindingu.“
Í aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda sé m.a. fjallað sérstaklega um skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. „Þetta er allt í góðu samræmi við það sem þarna er lagt til að þurfi að gera. Eins líka lagt til í skýrslunni að koltvísýringur sé dreginn beint úr andrúmsloftinu með tæknilegum aðferðum, öðrum en að binda hann með gróðri og jarðvegi. Það er áhugavert að íslenskir vísindamenn hafa verið framarlega í slíkum aðgerðum, eins og uppi á Hellisheiði.“
Þá stefni íslensk stjórnvöld að kolefnislausu Íslandi árið 2040, tíu árum fyrr en skýrsluhöfundar telji nauðsynlegt, eigi markmiðið um að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5° að nást.
Í skýrslu IPCC segir að verulegra fjárfestinga sé þörf eigi takast að halda hlýnun jarðar undir 1,5°. Kostnaðurinn jafngildi um 2,5% af vergri hnattrænni framleiðslu næstu tvo áratugina. Jafnvel með þeirri fjárfestingu þurfi einnig við véla, trjáa og gróðurs til að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu svo hægt sé að fanga hann og vista neðanjarðar það sem eftir er.
Spurður hvort íslensk stjórnvöld séu að gera nóg svarar Guðmundur Ingi: „Eins og fram kemur hjá skýrsluhöfundum þá munu aðgerðir í þessa veru kosta bæði fjármagn og tíma, en það mun kosta enn þá meira að bregðast ekki við. Meginskilaboð skýrslunnar eru að það er ekki valkostur að bregðast ekki við þessu.“
Íslensk stjórnvöld hafi í fjármálaáætlun sinni til næstu fimm ára eyrnamerkt tæpa 7 milljarða í loftslagsmálin. „Við höfum aldrei séð jafnmikla fjármuni fara þangað inn,“ segir Guðmundur Ingi.
Eins beri að nefna að ýmsar aðgerðir í loftslagsmálum hafi líka efnahagslegan ávinning í för með sér. Þannig sé það til að mynda með rafbílavæðinguna. Þeir séu ódýrari í rekstri fyrir hinn almenna neytanda. „Þannig hefur rafbílavæðing skýran efnahagslegan ávinning í för með sér. Við verðum líka minna háð innflutningi á eldsneyti, sem líka ætti að gera viðskiptajöfnuðinn okkur hagfelldari. Það er því ekki svo að allar aðgerðir í loftslagsmálum komi út í fjárhagslegum mínus heldur er líka hreinn ábati af þeim í sumum tilfellum.“
Guðmundur Ingi segir sumar þeirra aðgerða sem fjallað er um í aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda þegar vera komnar í gang. „Í öðrum er verið að vinna og svo eru einhverjar sem eru alveg á byrjunarreit.“
Við endurskoðun áætlunarinnar, sem verður í gangi fram til ársins 2019, verður að hans sögn horft til skýrslu IPCC, sem og annarra gagna. „Ég vil líka nefna að við settum loftslagsráð á fót í júní og því er ætlað að rýna aðgerðir og aðgerðaáætlun stjórnvalda og ég geri ráð fyrir að þau líti líka til þessarar skýrslu. Það er alveg ljóst að við tökum þessa skýrslu mjög alvarlega eins og aðrar skýrslur alþjóðasamfélagsins sem komið hafa fram og nýtum okkur það í okkar stefnumótun og aðgerðum.“