Óvíst hve víða svikapóstarnir fóru

Yfir eitt hundrað manns hafa haft samband við lögreglu vegna …
Yfir eitt hundrað manns hafa haft samband við lögreglu vegna svikapóstanna en óljóst er hversu margir sóttu skrá tölvuþrjótsins. mbl.is/Golli

Fleiri en hundrað einstaklingar hafa haft samband við lögreglu vegna svikapóstanna sem sendir voru út í nafni lögreglu á laugardagskvöld, segir Daði Gunnarsson, lögreglufulltrúi í tölvurannsókna- og rafeindadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Póstarnir komu frá netfanginu logreglan@logreian.is og voru þess eðlis að viðtakendur voru boðaðir í skýrslutöku hjá lögreglu og beint inn á vef sem var líkur vef lögreglunnar. Þar endaði ferlið á því að fólki var sagt að sækja skrár með nánari upplýsingum um skýrslutökuna.

Ekki liggur fyrir í hversu mörg pósthólf svikapóstarnir bárust í heildina, en Daði segir ljóst á fjölda þeirra sem hafi sett sig í samband við lögreglu að þeir hafi farið víða.

Lögreglan rannsakar málið og ætlar síðdegis í dag eða snemma í fyrramálið að koma út leiðbeiningum um það hvernig skuli bregðast við til þeirra sem féllu fyrir svikunum og sóttu skrá með óværu, sem veitir tölvuþrjótnum bakdyr eða fjarstýrðan aðgang að tölvu notandans – svokallaður trójuhestur (e. remote access trojan).

„Það virðist vera líklegast að þetta tengist því að komast í einhverjar fjármálaupplýsingar,“ segir Daði, sem segir svindlið sjálft hafa verið „mjög vel gert“ og að um sannfærandi svikatilraun hafi verið að ræða.

Ekki er hægt að slá því föstu hvort tölvuþrjóturinn sem þarna var að verki sé íslenskur eða erlendur, en lénið logreian.is sem notað var til að senda út svikapóstana, var keypt með stolnum upplýsingum frá Thelmu Dögg Guðmundsen, sem er bloggari og áhrifavaldur.

Daði segir að lögregla hafi ekki enn komist í að rannsaka þann anga málsins og af hverju auðkenni þessarar tilteknu konu hafi verið notuð til að kaupa lénið, þar sem áhersla hafi verið lögð á að skoða óværuna sjálfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert