Sólheimajökull hopaði um 110 metra í ár

Skiltið var fyrst sett upp árið 2010 og hefur undanfarin …
Skiltið var fyrst sett upp árið 2010 og hefur undanfarin ár verið viðkomustaður leiðsögumanna sem skýra fyrir ferðamönnum síbreytileika náttúrunnar. Ljósmynd/Gísli Jóhannesson - Gíslitheguide

Á hverju ári síðustu átta ár hafa nemendur í sjöunda bekk í Hvolsskóla farið upp að Sólheimajökli og mælt hversu mikið jökullinn hefur hopað. Síðasta árið hefur jökullinn hopað um 110 metra, sem er það mesta hingað til, en frá því mælingar hófust hefur hann hopað um samtals 379 metra.

Jón Stefánsson, kennari við skólann og verkefnastjóri fyrir umhverfisfræðslu, segir að þegar fyrsta mælingin hafi verið gerð árið 2010 hafi ekkert lón verið fyrir framan jökulinn. Síðustu ár hafi þau hins vegar einnig mælt dýptina og er hún í dag líklegast meira en 60 metrar. „Fyrstu árin var hægt að labba beint upp á jökulinn af sandinum, en í dag er þetta gjörbreytt landslag,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segir mælinguna hafa gengið vel, en þau hafa notið liðsinnis björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli. Árið 2010 var sett upp skilti og var það staðsett 318 metra frá jökulröndinni. Á næstu árum sýndu mælingar að jökullinn hafði hopað 8-79 metra á ári. Mælingin í ár sýnir hins vegar að hann hefur hopað um 110 metra, en það er met á þessu tímabili.

Upphaflega voru aðeins 318 metrar frá skiltinu að jöklinum, en …
Upphaflega voru aðeins 318 metrar frá skiltinu að jöklinum, en í dag eru þeir 697. Ljósmynd/Jón Stefánsson

Jón segir ástæðuna að öllum líkindum vera að stórir ísklumpar hafi hrunið úr honum. Vegna þess var stál jökulsins mjög hátt uppi frá lóninu með tilheyrandi hættu á hruni og var því ekki hætt á nákvæma dýptamælingu alveg undir stálinu eins og áður. Jón segir að vegna þessa hruns undanfarið megi gera ráð fyrir að mælingin á næsta ári verði ekki jafnafgerandi, þ.e. að jökullinn muni hopa minna á næsta ári.

Skiltið var sem fyrr sett upp í 318 metra fjarlægð frá jöklinum, en er eins og sjá má á meðfylgjandi mynd nú komið í 697 metra fjarlægð. Þá hefur lónið fyrir framan jökulinn dýpkað mikið, en í fyrstu mælingunni fyrir þremur árum var það mælt 40 metra djúpt. Árið eftir var það 60 metrar og í fyrra var talið að dýptin væri orðin meiri en 60 metrar, en mælingin það árið gekk erfiðlega að sögn Jóns.

Krakkarnir fengu að lokinni mælingu að fara út á lónið …
Krakkarnir fengu að lokinni mælingu að fara út á lónið með Dagrenningu. Ljósmynd/Jón Stefánsson

Þetta er ekki eina umhverfisverkefni sem nemendur í Hvolsskóla fá á skólagöngu sinni. Nemendur í fimmta bekk taka þátt í samstarfsverkefni Vistheimtar og Landgræðslunnar. Setja þau upp tilraunareiti á berangri á söndum Landeyja og gera tilraunir með að rækta upp landið sjálf með upprunalegum gróðri. Svo í áttunda bekk er framhaldsverkefni þar sem þau fá einn hektara við Búfell í Landssveit til þess að græða upp með sínum aðferðum. Er bæði farin ferð í áttunda bekk og svo aftur í tíunda bekk. Segir Jón að þau notist meðal annars við birkiplöntur og grasfræ og setji niður um 3.000 plöntur þegar þau fari.

Hægt er að lesa nánar um mælingarverkefni Hvolsskóla á vefsíðu Fjallasala, en þar er einnig að finna myndir sem sýna breytinguna síðustu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert