„Víðs fjarri raunveruleikanum“ 

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax.
Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ummæli veiðiréttarhafans Óttars Yngvasonar um erlent starfsfólk okkar og fjárfesta eru ótrúleg og eins og úr grárri forneskju. Þær tölulegu staðreyndir, sem hann ber á borð landsmanna gegnum Ríkissjónvarpið, um fjölda starfsmanna okkar og meint verðmæti eldisleyfa, eru einnig víðs fjarri raunveruleikanum.“ Þetta segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax ehf., í samtali við mbl.is um málflutning Óttars Yngvasonar í Kastljósi RÚV í kvöld.

Þar fullyrti Óttar m.a. að um 10-15 störf væri að ræða og sagði: „Og mest eru það Pólverjar og útlendingar.“ Þá fullyrti hann að þarna ættu þeir einungis bráðabirgðaheimili.
Síðar í viðtalinu sagði hann að í Noregi myndu fyrirtækin sem um ræðir þurfa að greiða 45 milljarða fyrir eldisleyfi. 

Dapurlegt að eltast við rangfærslur Óttars

„Hjá Arnarlaxi starfa 115 manns. Auk þess eru 100 verktakar og þjónustuaðilar. Í kjölfar fréttaflutnings Ríkisútvarpsins hafa nú Byggðastofnun og Hagstofan staðfest þessar upplýsingar. Heildarlaunagreiðslur Arnarlax 2017 voru um 1,1 milljarður,“ segir Kjartan og bætir við: „Það er í raun dapurleg staða að eltast við síendurteknar rangfærslur Óttars á RÚV, sem virðist ekki átta sig á aðstæðum.“

Á laugardag gerðu bæjarstjóri Vesturbyggðar og oddviti Tálknafjarðar sambærilegar athugasemdir við fréttaflutning RÚV þar sem staðreyndir voru hafðar eftir Óttari.

Óttar Yngvason í Kastljósi RÚV í kvöld.
Óttar Yngvason í Kastljósi RÚV í kvöld. Skjáskot/RÚV
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert