Dagforeldrar sem vinna saman fá húsnæði

Niðurgreiðslur til dagforeldra hækka um 15 prósent frá og með …
Niðurgreiðslur til dagforeldra hækka um 15 prósent frá og með næstu áramótum. Mynd úr safni. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Reykjavíkurborg mun útvega dagforeldrum sem vinna tveir og tveir saman húsnæði og niðurgreiðslur til allra dagforeldra munu hækka um 15% frá og með næstu áramótum. Þetta er meðal þess sem samþykkt var í dag á fundi skóla- og frístundaráðs og er liður í að ráðast í margháttaðar aðgerðir til að efla dagforeldraþjónustu í borginni.

Skúli Þór Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir í samtali við mbl.is að það sé vilji borgarinnar að dagforeldrar starfi tveir saman og að sá kostur verði frekar fyrir valinu í framtíðinni. „Það má líta á það sem hvetjandi aðgerð en þetta er ekki skylda, dagforeldrar geta valið áfram að starfa einir,“ segir hann.   

Tillögurnar sem samþykktar voru í dag byggja á tillögum starfshóps sem skipaður var fyrr á árinu og kynnti í júní tillögur sínar fyr­ir skóla- og frí­stundaráði borg­ar­inn­ar um end­ur­skoðun, þróun og breyt­ing­ar á dag­for­eldraþjón­ustu í Reykja­vík.

Í samþykktinni er einnig lagt til að veittur verði stofnstyrkur að upphæð 300 þúsund krónur til dagforeldra, en þó með því skilyrði að þeir starfi í að minnsta kosti ár.

Einnig verða veittir námsstyrkir til dagforeldra og faglegur stuðningur við þá verður aukinn. Innleitt verður ytra mat á daggæslu með vísan í gæðaviðmið sem þróuð hafa verið í samvinnu við félög dagforeldra. Einnig á að auka á upplýsingagjöf og sérstakt námsefni verður gefið út fyrir dagforeldra af erlendum uppruna. Þá mun Reykjavíkurborg leita leiða til að verja foreldra fyrir fyrirvaralausri uppsögn dagforeldra.

Aðgerðirnar taka gildi 1. janúar á næsta ári og áætlað er að heildarkostnaður vegna þessara aðgerða verði tæplega 61 milljón króna ef frá er talinn húsnæðiskostnaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert