Heildarlaun hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands hækkuðu að meðaltali um 7,4% á fyrri hluta ársins. Það var mesta prósentuhækkunin meðal ríkisstarfsmanna á tímabilinu.
Næstir komu félagsmenn hjá BSRB og ASÍ, en laun þeirra hækkuðu að meðaltali um 6,3%.
Þetta er meðal þess sem má lesa úr launatöflum á vef stjórnarráðsins.
Félagsmenn í Læknafélagi Íslands hafa fengið mesta hækkun í krónum talið á fyrri hluta ársins, eða um 70 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Laun skurðlækna hafa hækkað um 50 þúsund og laun hjá Sinfóníunni um 42 þúsund.
Laun ríkisstarfsmanna hafa hækkað um tugi prósenta síðustu ár. Fyrir vikið eru nú sex hópar ríkisstarfsmanna með yfir 800 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði. Til dæmis voru hjúkrunarfræðingar með um 835 þúsund að meðaltali í heildarlaun á fyrri hluta ársins.
Laun þeirra sem heyrðu undir kjararáð, sem var lagt niður, hækkuðu um 1,2% á fyrri hluta árs, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.