„Þetta er að fara í ferli með lögfræðingi,“ segir Kristinn Sigurjónsson, fráfarandi lektor við tækni- og verkfræðibraut Háskólans í Reykjavík (HR), í samtali við mbl.is. Honum var sagt upp í kjölfar ummæla um konur sem féllu í Facebook-hópnum Karlmennskuspjallið.
Þar sagði Kristinn m.a. að konur troði sér sér inn á vinnustaði þar sem karlmenn vinna. Þá sagði hann að konur eyðilegðu vinnustaðina því karlmenn eigi að „tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti“.
Kristinn segir málið viðkvæmt og hann vilji lítið segja fyrr en hann er búinn að ráða sér lögfræðing. Hann segir þó ljóst að áðurnefnd ummæli hafi verið sett fram í „léttu rabbi“ á lokaðri Facebook-síðu.
Kristinn hefur ekki skrifað undir uppsagnarbréfið og segir að það sé eitt af því sem lögmaðurinn þurfi að skoða með honum. Hann segir að sér hafi verið sagt upp fyrirvaralaust, án nokkurs undanfara eða aðvörunar.
„Þetta var gert vegna einhvers sem ég skrifaði á lokaðri Facebook-síðu. Ég hafði bara val um að gera starfslokasamning eða vera sagt upp,“ segir Kristinn og bætir við að fletirnir á málinu geti verið margir að hans mati; hvort um sé að ræða brot á tjáningarfrelsi, réttindabrot eða ærumeiðingar.
Kristinn varð 64 ára í gær og gerir ekki ráð fyrir því að fá aðra vinnu. Almennt sé erfitt fyrir fólk yfir fimmtugu að fá starf „og hvað þá þegar maður er 64 ára gamall“.
Kristinn bendir á að almennt taki langan tíma að þjálfa verkfræðinga upp í starfi en að hans sögn getur það tekið upp í eitt ár. „Þetta gerir það að verkum að það getur verið óvenjuerfitt fyrir mig að fá vinnu. Óvenjuerfitt eða nánast útilokað.“
Kristinn vill ítreka það sem haft var eftir honum í gær; að honum sé alls ekki illa við konur. „Það eru mikil vonbrigði að lenda í þessu.“