„Myndi aldrei taka þátt í neinu svona“

mbl.is/Eggert

Aðgerðir lög­reglu sem snúa að meintu skjalafalsi, þar sem tíu menn voru hand­tekn­ir í morg­un, snúa að starfs­mannaþjón­ust­unni Mann­gildi. Eig­andi fyr­ir­tæk­is­ins var hand­tek­inn í aðgerðunum, sem fóru fram sam­tím­is í Reykja­vík og Kópa­vogi. Hann neit­ar sök og seg­ir að hann myndi aldrei taka þátt í slíku.

Ingimar Skúli Sæv­ars­son, sem er eig­andi og fram­kvæmda­stjóri Mann­gild­is, vildi ekki koma í viðtal þegar mbl.is leitaði eft­ir því, en hann vísaði á lög­mann sinn, Tryggva Agn­ars­son.

„Þeir eru að leita að fólki sem þeir telja að hafi komið ólög­lega inn í landið,“ seg­ir Tryggvi í sam­tali við mbl.is. Farið var sam­tím­is inn á skrif­stof­ur fyr­ir­tæk­is­ins í Kópa­vogi og íbúðar­hús­næði á veg­um þess í Reykja­vík.

„Þeir hand­taka þar íbúa og hand­taka fram­kvæmda­stjóra fé­lags­ins og taka af hon­um skýrslu,“ seg­ir Tryggvi og bæt­ir við að Ingimar Skúli hafi verið spurður að því hvernig þetta fólk hafi komið til lands­ins. Það sé grun­ur um að menn hafi komið til lands­ins á fölsuðum skil­ríkj­um. 

Grun­ur um að veg­bréf­in væru bæði fölsuð og stol­in

Fram kom í til­kynn­ingu sem lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu sendi frá sér fyrr í dag, að menn­irn­ir séu grunaðir um að hafa fengið skrán­ing­ar á kenni­töl­um í gegn­um Þjóðskrá með svik­söm­um hætti. Þeir hafi fengið út­hlutað ker­fis­kenni­tölu á utang­arðsskrá, en þegar þeir sóttu um ný­skrán­ingu, svo­kallaða fulla skrán­ingu, vöknuðu grun­semd­ir um að fram­lögð vega­bréf þeirra væru bæði fölsuð og stol­in.

Myndin er úr safni.
Mynd­in er úr safni. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Aðspurður seg­ir Tryggvi að Ingimar Skúli hafi tjáð lög­regl­unni að hon­um væri ekki kunn­ugt um neitt slíkt. Hann hafi enga hags­muni af því og myndi ekki taka þátt í slíku. 

Tryggvi seg­ir að Ingimar Skúli hafi ekki verið upp­lýst­ur um það hvenær þetta átti að hafa gerst. Í upp­haf­legri frétta­til­kynn­ingu lög­reglu var rang­lega sagt að menn­irn­ir hefðu fengu út­hlutað ker­fis­kenni­tölu á utang­arðsskrá um mitt síðasta ár. Hið rétta sé að þeir hafi fengið út­hlutað ker­fis­kenni­tölu á utang­arðsskrá á þessu ári.

Viti ekki hvað menn séu að tala um

Tryggvi seg­ist aðspurður ekki hafa fengið upp­lýs­ing­ar um það frá lög­reglu hvaða starfs­menn þetta eru sem lög­regl­an hand­tók í aðgerðunum í morg­un. 

„Um­bjóðandi minn er yf­ir­heyrður og hann lýs­ir þessu [þannig] að hann viti ekki hvað menn eru að tala um og myndi aldrei taka þátt í neinu svona, enda hefði hann enga hags­muni af því,“ seg­ir lögmaður­inn og bæt­ir við að Ingimari Skúla hafi verið sleppt fljót­lega eft­ir skýrslu­töku lög­reglu.

Ekki hef­ur náðst í lög­reglu vegna máls­ins.  

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert