„Myndi aldrei taka þátt í neinu svona“

mbl.is/Eggert

Aðgerðir lögreglu sem snúa að meintu skjalafalsi, þar sem tíu menn voru handteknir í morgun, snúa að starfsmannaþjónustunni Manngildi. Eigandi fyrirtækisins var handtekinn í aðgerðunum, sem fóru fram samtímis í Reykjavík og Kópavogi. Hann neitar sök og segir að hann myndi aldrei taka þátt í slíku.

Ingimar Skúli Sævarsson, sem er eigandi og framkvæmdastjóri Manngildis, vildi ekki koma í viðtal þegar mbl.is leitaði eftir því, en hann vísaði á lögmann sinn, Tryggva Agnarsson.

„Þeir eru að leita að fólki sem þeir telja að hafi komið ólöglega inn í landið,“ segir Tryggvi í samtali við mbl.is. Farið var samtímis inn á skrifstofur fyrirtækisins í Kópavogi og íbúðarhúsnæði á vegum þess í Reykjavík.

„Þeir handtaka þar íbúa og handtaka framkvæmdastjóra félagsins og taka af honum skýrslu,“ segir Tryggvi og bætir við að Ingimar Skúli hafi verið spurður að því hvernig þetta fólk hafi komið til landsins. Það sé grunur um að menn hafi komið til landsins á fölsuðum skilríkjum. 

Grunur um að vegbréfin væru bæði fölsuð og stolin

Fram kom í tilkynningu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér fyrr í dag, að mennirnir séu grunaðir um að hafa fengið skrán­ing­ar á kenni­töl­um í gegn­um Þjóðskrá með svik­söm­um hætti. Þeir hafi fengið út­hlutað ker­fis­kenni­tölu á utang­arðsskrá, en þegar þeir sóttu um ný­skrán­ingu, svo­kallaða fulla skrán­ingu, vöknuðu grun­semd­ir um að fram­lögð vega­bréf þeirra væru bæði fölsuð og stol­in.

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðspurður segir Tryggvi að Ingimar Skúli hafi tjáð lögreglunni að honum væri ekki kunnugt um neitt slíkt. Hann hafi enga hagsmuni af því og myndi ekki taka þátt í slíku. 

Tryggvi segir að Ingimar Skúli hafi ekki verið upplýstur um það hvenær þetta átti að hafa gerst. Í upphaflegri fréttatilkynningu lögreglu var ranglega sagt að mennirnir hefðu fengu úthlutað kerfiskennitölu á utangarðsskrá um mitt síðasta ár. Hið rétta sé að þeir hafi fengið úthlutað kerfiskennitölu á utangarðsskrá á þessu ári.

Viti ekki hvað menn séu að tala um

Tryggvi segist aðspurður ekki hafa fengið upplýsingar um það frá lögreglu hvaða starfsmenn þetta eru sem lögreglan handtók í aðgerðunum í morgun. 

„Umbjóðandi minn er yfirheyrður og hann lýsir þessu [þannig] að hann viti ekki hvað menn eru að tala um og myndi aldrei taka þátt í neinu svona, enda hefði hann enga hagsmuni af því,“ segir lögmaðurinn og bætir við að Ingimari Skúla hafi verið sleppt fljótlega eftir skýrslutöku lögreglu.

Ekki hefur náðst í lögreglu vegna málsins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka