Tíu handteknir fyrir vegabréfafölsun

Mennirnir tíu voru handteknir fyrir vegabréfafölsun.
Mennirnir tíu voru handteknir fyrir vegabréfafölsun. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í morgun tíu karlmenn, einn íslenskan og níu erlenda, í tengslum við rannsókn á skjalafalsi, nánar tiltekið vegabréfafölsun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Mennirnir voru handteknir á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, en þar voru jafnframt framkvæmdar húsleitir. Einnig var lagt hald á gögn hjá einu fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, sem tengist málinu.

Tímenningarnir eru grunaðir um að hafa fengið skráningar á kennitölum í gegnum Þjóðskrá með sviksömum hætti. Þeir fengu úthlutað kerfiskennitölu á utangarðsskrá á þessu ári, en þegar þeir sóttu um nýskráningu, svokallaða fulla skráningu, vöknuðu grunsemdir um að framlögð vegabréf þeirra væru bæði fölsuð og stolin.

Lögregla segist ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Uppfært: Í upphaflegri tilkynningu frá lögreglu kom fram að mennirnir hafi fengið úthlutaðar kerfiskennitölur á miðju síðasta ári. Ný tilkynning var send stuttu síðar með leiðréttingu, en hið rétta er að kennitölunum var úthlutað á þessu ári. Hefur það verið leiðrétt í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert