Verið að skapa óþarfa ótta eða ekki?

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er mjög mikilvægt að úr þessum ræðustól sé ekki verið að skapa óþarfan ótta um að ástandið sé ekki öruggt hér. Það er það svo sannarlega, það er mjög öruggt ástand í flugi á Íslandi,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Jóni Þóri Þorvaldssyni, varaþingmanni Miðflokksins, sem gagnrýndi fjárframlög til uppbyggingar innviða þegar að flugvallastarfsemi kæmi.

„Þrisvar sinnum á síðastliðnum 18 mánuðum hefur skapast hættuástand vegna mikillar flugumferðar, veðurs og bágs ástands flugvalla á Íslandi. Vissulega kosta framkvæmdir við flughlið og akbrautir, flugleiðsögubúnað og fjarskiptatæki mikla fjármuni. En því skal haldið til haga að flugiðnaðurinn stendur nú undir 20% af vergri þjóðarframleiðslu og hefur aukist úr rúmum 6% frá árinu 2010 án þess að framlög ríkisins hafi aukist í samræmi við framlög iðnaðarins til þjóðarbúsins,“ sagði Jón Þór enn fremur.

Þingmaðurinn spurði ráðherra hvort stefna stjórnvalda væri að svelta flugvalla- og flugleiðsögukerfið á Íslandi „og taka áhættuna og ábyrgðina á að hér verði stórslys í flugi sem afstýra mætti með ákvörðun um að sækja fram í flugmálum sem er meginstoð þjóðarbúsins nú.“ Sigurður Ingi sagði fjársveltið ekki meira en svo að framlög til málaflokksins hefðu verið aukin um 340 milljónir króna á síðasta ári og á næsta yrðu þau aukin um 350 milljónir. Framlögin væru úr 1,8 milljörðum í 2,5 milljarða.

Jón Þór sagði framlög vissulega hafa aukist en að þau væru í engu samræmi við þörfina. Talað væri um að þörf væri á 700 milljónum króna á ári til að viðhalda núverandi ástandi og verðmæti mannvirkja á flugvöllum. „Til að bæta um betur þurfum við að minnsta kosti 1.250 milljónir sem eru þó ekki nóg til að bæta aðstöðuna.“ Sagði hann alþjóðasamtök flugmanna hafa varað flugmenn í millilandaflugi við því að nota varaflugvelli á Íslandi.

Ráðherra sagðist sammála, því meiri fjármuni þyrfti vissulega en það væri engu að síður staðreynd að fjárframlögin hefðu verið aukin. Varaði hann síðan við því sem fyrr segir að skapaður væri óþarfa ótti vegna flugmála á Íslandi. Engin ástæða væri til þess. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í kjölfarið um fundarstjórn forseta og gagnrýndi ráðherrann harðlega fyrir að saka Jón Þór um að skapa óþarfa ótta fyrir það eitt að benda á þörf á því að tryggja betur öryggi á íslenskum flugvöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert