Aðalmeðferð í innherja- og umboðssvikamáli tengdu félaginu Hreiðar Már Sigurðsson ehf. hefst í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur, en um er að ræða síðasta hrunmálið sem var þingfest. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð þess taki tvo daga, en þetta er 23. málið sem embætti sérstaks saksóknara og síðar héraðssaksóknara höfðaði í tengslum við fall fjármálakerfisins.
Í málinu er Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, sakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar hann lét bankann veita einkahlutafélaginu Hreiðar Már Sigurðsson ehf. 574 milljóna króna eingreiðslulán í ágúst 2008. Er hann ákærður fyrir umboðssvik og innherjasvik.
Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, var ákærð fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að hafa veitt liðsinni í verki við að koma þeim fram. Einkum með fyrirmælum og samskiptum við lægra setta starfsmenn bankans síðari hluta ágústmánaðar 2008.
Í ákærunni segir að lánið hafi verið veitt án samþykkis stjórnar bankans og án þess að fullnægjandi tryggingar væru fyrir endurgreiðslu þess. Hafi einu tryggingar lánsins verið allir hlutirnir í einkahlutafélaginu, sem fyrir hafi verið veðsettir vegna eldri skulda félagsins og því ekki nægilegt veðrými til staðar fyrir nýja lánið.
Lánið var nýtt til að kaupa hluti í bankanum fyrir 571 milljón krónur, en sama dag hafði Hreiðar í eigin nafni samkvæmt kauprétti keypt sömu hluti fyrir 246 milljónir.
Hreiðar Már hefur samtals verið ákærður í fimm málum frá hruni. Hann fékk fimm og hálfs árs dóm í al Thani-málinu. Við það bættist hálfs árs fangelsi í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings og var hann þar með kominn upp í hámark refsiramma fyrir þennan brotaflokk. Í Marple-málinu var refsing hans hins vegar þyngt með eins árs hegningarauka, en slíkt er heimilt þegar um ítrekuð brot er að ræða. Hefur hann áfrýjað þeim dómi til Landsréttar. Þá var Hreiðar einnig ákærður í CLN-málinu svokallaða sem var vísað frá héraðsdómi nýlega, en sá úrskurður var kærður af saksóknara.
Guðný hafði áður verið ákærð í Marple-málinu, en hún var sýknuð í héraðsdómi.