Erlendum farþegum fjölgaði um 13,6%

Ferðamenn taka sjálfur við Goðafoss.
Ferðamenn taka sjálfur við Goðafoss. mbl.is/​Hari

Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll í september síðastliðnum voru tæplega 232 þúsund talsins samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 28 þúsund fleiri en í september á síðasta ári.

Fjölgunin nam 13,6% á milli ára sem er álíka og í maí og mun meiri en mælst hefur aðra mánuði ársins, að því er Ferðamálastofa greinir frá.

Bandaríkjamenn fjölmennastir

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í september eða ríflega þriðjungur og fjölgaði þeim um 43,7% milli ára.

Af 32 þjóðernum sem talin eru sérstaklega var fjölgun frá 19 löndum. Að Bandaríkjamönnum frátöldum munar mest um Spánverja, Kínverja og Pólverja. Fækkun var frá nokkrum lykilmörkuðum á borð við Bretland, Þýskaland og Frakkland, segir í tilkynningu.

Frá áramótum hefur um 1,8 milljón erlendra farþega farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 5,5% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka