Íslenska ríkið hefur gert réttarsátt við tvo einstaklinga, sem höfðuðu mál vegna mistaka embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við afmáningu nafna og annarra persónugreinanlegra upplýsinga við birtingu skýrslu Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns, um mótmæli í Reykjavík á árunum 2008-2011.
Þeim Steinunni Gunnlaugsdóttur og Snorra Páli Jónssyni eru hvoru um sig greiddar 500.000 krónur í miskabætur, auk þess sem ríkið greiðir þeim báðum 584 þúsund krónur í lögmannskostnað, en réttarsáttin var undirrituð í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Þegar skýrslan var birt opinberlega og afhent fjölmiðlum haustið 2014 varð ljóst að mistök höfðu átt sér stað og vegna þeirra mistaka var unnt að lesa í gegnum yfirstrikun í prentuðum eintökum skýrslunnar og fjarlægja yfirstrikun yfir texta úr stafrænu eintaki skýrslunnar sem afhent var fjölmiðlum.
Steinunn og Snorri Páll sendu frá sér fréttatilkynningu síðdegis vegna málsins, þar sem þau segja að þrátt fyrir þessi tilteknu málalok sé enn fjölmörgu ósvarað varðandi skýrsluna, markmiðið með ritun hennar og þá atburðarás sem leiddi til opinberrar birtingar hennar.
Þau hvetja enn fremur alla þá einstaklinga sem nafngreindir eru í skýrslunni til þess að „leita tafarlaust réttar síns og krefjast miskabóta með vísan til ofangreindrar réttarsáttar í máli okkar.“