Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fundaði í gær með umhverfisráðherra Finnlands, Kimmo Tiilikainen, í Rovaniemi, höfuðstað Lapplands í Finnlandi.
Fundarefnið var formennska Íslands í norðurskautsráðinu sem hefst á næsta ári. Finnar hafa gegnt formennsku frá árinu 2017. Rætt var um áherslur Finnlands í sinni formennskutíð og þau málefni sem Ísland mun hafa í brennidepli í formennsku sinni á árunum 2019-2021. Finnar hafa meðal annars lagt áherslu á umhverfisvernd, fjarskipti, veðurfræði og menntun, að því er segir á vef Stjórnarráðsins.
Fundurinn fór fram í tengslum við fund umhverfisráðherra norðurskautsríkjanna sem hefst í dag í Rovaniemi. Þar verða loftslagsbreytingar, líffræðilegur fjölbreytileiki og mengunarvarnir meðal þeirra mála sem fjallað verður um.