Hafna því að brotið sé á starfsmönnum

Þjónusta strætó var aukin í ár, meðal annars með lengri …
Þjónusta strætó var aukin í ár, meðal annars með lengri aksturstíma, tíðari ferðum og næturakstri, sem kallaði á 50 nýjum tímabundnum stöðugildum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Strætó bs. hafnar alfarið ásökunum Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins, um að brotið sé á réttindum og kjörum starfsmanna fyrirtækisins. Sanna Magdalena birti í gær færslu á Facebook þar sem hún sakar Strætó bs. um „níðingsskap gagnvart erlendu starfsfólki í láglaunastörfum.“ 

Í færslunni vísar Sanna í launaseðil erlends bílstjóra hjá fyrirtækinu sem hún hefur undir höndum. Samkvæmt honum innheimti Strætó húsaleigu og flugmiða af viðkomandi sem fyrirtækið hafði ráðið í gegnum starfsmannaleigu. Færslu Sönnu má nálgast í heild sinni neðst í fréttinni.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Strætó bs. hefur sent frá sér yfirlýsingu ásamt afrit launaseðla tveggja stafsmanna sem voru ráðnir í gegnum starfsmannaþjónustu Elju. Í yfirlýsingunni segir að fyrirtækið rukki ekki fyrir húsaleigu í dag en það hafi verið gert eftir að samþykkt var að leita til Elju starfsmannaþjónustu eftir að ákveðið var að auka þjónustu strætó í ár, meðal annars með lengri aksturstíma, tíðari ferðum og næturakstri. Breytingarnar kölluðu á 50 ný stöðugildi og leitað var til starfsmannaþjónustu Elju þegar enn átti eftir að ráða 30 stöðugildi sem upp á vantaði í tímabundna ráðningu.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.
Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. Ljósmynd/Aðsend

Í launaseðlunum sést að rukkað var fyrir húsaleigu upp á 70 og 75 þúsund krónur. Forsvarsmenn Strætó bs. árétta að slíkur frádráttur vegna húsaleigu er ekki sú leið sem fyrirtækið myndi almennt kjósa að fara. „Umræddir starfsmenn voru með skriflegan húsaleigusamning við Elju þar sem fram kom að húsaleiga yrði dregin af launum. Í ljósi aðstæðna og að starfsmenn samþykktu frádráttinn skriflega, var tekin ákvörðun að greiðsla á húsaleigu færi í gegnum laun í þessu undantekningar tilviki,“ segir í yfirlýsingu Strætó bs.

Að loknu ráðningartímabili sótti stór hluti umræddra starfsmanna um áframhaldandi vinnu hjá Strætó bs. Af þeim sem sóttu um voru fjórir starfsmenn fastráðnir og hafa þeir nú komið sér fyrir í húsnæði á eigin vegum. Engin húsaleiga er dregin af launum starfsmanna Strætó í dag.

„Strætó bs. hafnar því með öllu að brotið sé á réttindum og kjörum starfsmanna sinna,“ segir í yfirlýsingu og býður framkvæmdastjóri Strætó bs., Jóhannes Rúnarsson, Sönnu Magdalenu að koma í heimsókn og kynna sér starfsemi fyrirtækisins.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert