„Ef það er svo að EES-samningurinn ógnar matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar ber okkur að skoða hvort það sé þess virði að halda í samninginn.“
Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag. Tilefnið er dómur Hæstaréttar í dag þess efnis að íslensk lög og reglur, sem kveða á um að afla þurfi leyfis fyrir innflutningi á kjöti, eggjum og mjólkurafurðum og gera kröfu um frystingu innflutts kjöts, brjóti í bága við aðild Íslands að EES-samningnum.
Gunnar, sem hefur bæði gegnt embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og utanríkisráðherra, segir að Íslendingar hljóti „að setja mikilvægi heilbrigðis Íslendinga og matvælaframleiðslu á Íslandi ofar hagsmunum verslunarinnar.“
Miðflokkurinn samþykkti á landsþingi sínu síðasta vetur að flokkurinn teldi að annaðhvort ætti að fara fram á að gerðar yrðu breytingar á EES-samningnum eða segja honum upp.