Var vísað frá Íslandi og dvelja í skógi

Nasr Mohammed Rahim, Leo Nasr Mohammed og Sobo Anw­ar Has­an, …
Nasr Mohammed Rahim, Leo Nasr Mohammed og Sobo Anw­ar Has­an, þegar rætt var við þau síðasta haust. mbl.is/Árni Sæberg

Nasr Mohammed Rahim og Sobo Answ­ar Has­an og börn þeirra, Leó og Leona, hafa flúið frá Þýskalandi eftir að til stóð að umsókn þeirra um alþjóðlega vernd þar yrði hafnað. Áður höfðu þau verið flutt frá Íslandi til Þýskalands í fyrra. Þau óttast um líf sitt verði þau send heim til Írans og Írak.

Þriggja manna fjölskyldan Nasr, Sobo og eins og hálfs árs gamall Leó var flutt frá Íslandi í lok nóvember í fyrra. Hingað komu þau í mars í fyrra eftir að beiðni þeirra um hæli í Þýskalandi hafði verið hafnað. 

Frá Íslandi voru þau flutt til Þýskalands, þar sem þau hafa dvalið í flóttamannabúðum í tíu mánuði. Þriggja manna fjölskyldan varð fjögurra manna og er Leona sex mánaða gömul.

Nasr og Sobo líta á sig sem Kúrda en Nasr er með ír­akst rík­is­fang og Sobo með ír­anskt. Faðir Sobo er hátt­sett­ur íslamsk­ur klerk­ur og var fjöl­skylda henn­ar al­gjör­lega á móti því að hún gift­ist Nasr. Kúr­d­ar eru þjóðar­brot sem býr í fjalla­héruðum Tyrk­lands, Íraks og Írans og í minna mæli í Sýr­landi og Armen­íu. Þeir eru um 30-35 millj­ón­ir og eru þar með stærsta rík­is­lausa þjóðar­brot heims.

Leó við varðeld í skógi.
Leó við varðeld í skógi. Ljósmynd/Aðsend

Samkvæmt upplýsingum frá vini Nasr er ástand fjölskyldunnar alls ekki gott. Þau hafast við í skóglendi í Frakklandi og þau vita að ef þau verða send aftur til baka verður fjölskyldunni í besta fallið sundrað. Nasr hefur sjálfur sagt áður að þeirra bíði dauðarefsing snúi þau aftur heim.

Vinurinn heyrði síðast í Nasr fyrir tveimur dögum síðan og kveðst aðspurður ekki hafa hugmynd um áætlanir fjölskyldunnar, eða hvort flóttinn frá Þýskalandi hafi verið úthugsaður. Hann segir að fjölskyldan geri hvað sem er til að forðast blottflutning aftur til Írans og Írak og því hafi flóttinn líklega ekki verið skipulagður.

„Ég grátbað yf­ir­völd um að fá að dvelja hérna. Okk­ur hafa borist hót­an­ir í gegn­um Face­book eft­ir að við vor­um skírð til kristni. Mér hef­ur verið hótað því að ég verði drep­inn,“ sagði Nasr í viðtali við mbl.is síðasta haust.

Bæði börnin fæddust í Þýskalandi og eru bæði ríkisfangslaus, enda hafa þau verið á flótta allt sitt líf. Foreldrarnir segja að samkvæmt siðum í Íran tilheyri börnin Evrópu af því að þar sé fæðingarland þeirra.

„Ef við för­um aft­ur til Íran telj­um við lík­legt að hann [Leó] verði grýtt­ur til dauða. Þau munu segja að hann sé trú­laus eða krist­inn og eigi enga framtíð í Íran, eins og for­eldr­ar hans,“ sagði Nasr síðasta haust. Hann bætti því við að fjölskyldan vildi bara lifa eðlilegu lífi en þau kunnu vel við sig hér á landi þann stutta tíma sem þau voru á landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert