Fullyrðir að framtakið sé löglegt

mbl.is/Kristinn

Stjórnarformaður Viskubrunns ehf., félags sem rekur vefsíðuna Tekjur.is þar sem birtar eru upplýsingar um tekjur allra Íslendinga árið 2016 samkvæmt gögnum rikisskattstjóra gegn gjaldi, Jón Ragnar Arnarson, segir í fréttatilkynningu að tilgangurinn með framtakinu sé að stuðla að gegnsæi og samræmi í umfjöllun um skattamál.

„Þannig eru ekki birtar upplýsingar um þröngan hóp valinna einstaklinga, heldur er notendum síðunnar í sjálfsvald sett hvaða upplýsingar þeir kynna sér. Upplýsingarnar á tekjur.is eru endanlegar upplýsingar um framtaldar tekjur. Þar eru ekki birtar bráðabirgðaupplýsingar eða áætlanir eins og hingað til hefur tíðkast í tekjublöðum,“ segir enn fremur. Gjaldinu sé ætlað að standa straum af kostaði.

„Fyrir einkaaðila eru umtalsverð vinna og kostnaður fólgin í því að taka upplýsingarnar saman og gera þær aðgengilegar fyrir almenning. Hóflegu aðgangsgjaldi er ætlað að standa straum af þeim kostnaði,“ segir Jón Ragnar enn fremur og fullyrðir að birting upplýsinganna byggi á heimild í sérstöku ákvæði skattalaga.

Persónuvernd er með málið til skoðunar en kvartanir hafa borist stofnuninni með vísan í friðhelgi einkalífsins. Meðal annars frá Björgvini Guðmundssyni almannatengli.

Mbl.is hefur ítrekað reynt að ná sambandi við Jón Ragnar í dag en án árangurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert