Lögmaður fráfarandi trommara Sigur Rósar, Orra Páls Dýrasonar krafðist þess að Stundin stöðvi umfjöllun sína og viðtal við Meagan Boyd, bandaríska listakonu sem hefur sakað hann um að hafa nauðgað sér árið 2013. Ritstjórar Stundarinnar höfnuðu kröfunni og viðtalið við Boyd birtist í Stundinni í dag. Einnig segjast þau ítrekað hafa reynt að ná tali af Orra Páli til að fá hans hlið á málinu.
Í viðtal við Stundina í dag lýsir Boyd kynnum sínum af Orra Páli og atburðarrás hinnar meintu nauðgunar. Hún segir jafnframt að henni hafist borist hótanir og haturspóstur í kjölfar þessara ásakana.
„Mig langar ekkert að vera manneskjan sem er á Wikipedia-síðunni hans, eingöngu þekkt fyrir að segja frá því sem ég upplifði, setja fram ásakanir sem er aldrei hægt að sanna. Ég fékk bara nóg af því að halda þessu inni. Ég er bara komin með nóg af nauðgunarmenningu og ég veit að þetta er úti um allt í tónlistarsenunni. Og enginn þorir að stíga fram út af mótlætinu sem fylgir," segir Boyd í viðtalinu.
Orri Páll hætti í hljómsveitinni Sigur Rós þegar Boyd birti umræddar ásakanir á Instagram síðu sinni en hafnar ásökununum. „Fram skal tekið að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að losa mig úr þessari martröð en af virðingu við raunverulega þolendur ofbeldis mun ég þó ekki taka þann slag opinberlega," skrifaði hann í opinberri Facebook færslu.
Stundin greindi frá því í frétt að þeim hafi borist bréf frá lögmanni Orra Páls í gær.
„Í bréfi lögmannsins er farið fram á að Stundin birti ekki frekari umfjallanir um frásögn Meagan Boyd, þar sem hún greinir frá því að Orri Páll hefði beitt hana kynferðisofbeldi. Stundin hafði ítrekað leitað til Orra Páls og umboðsskrifstofu hans vegna fréttar sem birtist í prentútgáfu Stundarinnar á morgun, en ekki fengið svör fyrr en bréf lögmannsins barst," segir í frétt Stundarinnar.
Ritstjórar Stundarinnar, þau Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson svöruðu bréfinu skriflega á vefsíðu Stundarinnar í gær og sögðu meðal annars:
„Krafa Orra Páls um að umfjöllunin verði stöðvuð stangast á við tjáningarfrelsi konunnar, rétt almennings til upplýsinga um það sem er í samfélagsumræðunni og svo tjáningarfrelsi fjölmiðla. Að stöðva umfjöllun núna, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að vitni greini frá og að konan færi fram frásögn af umræddum atvikum, er óréttlætanlegt. Stundin mun verjast fyrir dómstólum ef þess krefst.“
Í samtali við mbl.is í dag segir Ingibjörg Dögg að Orra Páli hafi verið gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri en að hann hafi í staðinn kosið að senda lögfræðibréf þar sem krafist var að umfjöllun Stundarinnar var stöðvuð. „Okkur þykir miður að Orri hafi valið að fara þessa leið, því þarna er verið að reyna að þagga niður umfjöllun um mál sem er nú þegar í opinberri umræðu,“ segir Ingibjörg.
„Þegar farið er að skoða hvaða heimildir liggja þar að baki, gefa málsaðilum rými til að ræða sína reynslu og ræða við vitni, þá er reynt að þagga niður í umfjöllun sem hefur nú þegar verið til umfjöllunar í helstu miðlum landsins og víða erlendis. Það horfir undarlega við okkur hvað sumum virðist þykja sjálfsagt að þagga niður umfjöllun fjölmiðla. Þannig höfum við oftar en einu sinni verið dregin fyrir dóm til þess að svara fyrir mál sem hafa verið til umfjöllunar flestum miðlum landsins. Við höfum unnið þau mál en það kostar tíma og orku að verjast tilhæfulausum meiðyrðamálum í dómsmál, sem við hefðum ella geta nýtt í að byggja upp ritstjórnina. Við höfum fullan skilning á því að þetta mál sé sárt fyrir alla hlutaðeigandi, en í umfjöllun um málið felst ekki dómur. Hún er bara liður í stærri umræðu sem er í hámæli um þessar mundir og á sér stað um allan heim, ekki síst í ljósi nýliðinna atburða í Bandaríkjunum þar sem #metoo-byltingin hefur verið leidd áfram.“