Jafnt kristnar grafir sem heiðnar minjar frá upphafi byggðar á Íslandi fundust við fornleifauppgröftinn á bílastæði Landssímans 2016 til 2017.
Annars staðar á Landssímareitnum, þar sem grafið var, fundust m.a. gripir sem benda til járnvinnslu og útgerðar á 9. og 10. öld og varnargarðar frá því fyrir 1200.
Þetta kemur fram í gögnum um rannsóknina sem Morgunblaðið aflaði frá Minjastofnun á grundvelli upplýsingalaga. Skýrsla VG fornleifarannsókna ehf. um uppgröftinn sem berast átti í júní er enn ókomin til Minjastofnunar.
Samtals voru 22 heillegar grafir undir bílastæðinu, en þar var áður hluti hins forna Víkurkirkjugarðs, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.