Gengislækkun krónunnar er sögð munu örva sölu verslana í miðborg Reykjavíkur. Þá með því að verðlag sé nú hagstæðara fyrir ferðamenn. Velta erlendra korta fyrstu átta mánuði ársins var minni en í fyrra.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Aðalsteinn Ingi Pálsson, framkvæmdastjóri Icewear, fjölgun efnaðra ferðamanna hafa haft áhrif á verslun í miðborginni. Þeir séu t.d. líklegri en aðrir til að kaupa dýr föt.
„Mín tilfinning er að salan á þessum dýrustu hlutum gæti hafa aukist,“ segir Aðalsteinn Ingi sem telur að veiking krónu muni örva sölu.
Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar, segir gengisstyrkingu fyrr í ár hafa haft áhrif á kortaveltuna. „Kaupákvörðun fólks frá öðrum ríkjum byggist í flestum tilvikum á því hvað varan kostar í þeirra gjaldmiðli. Við þekkjum það sjálf að umreikna verð í íslenskar krónur þegar við erum í útlöndum.“