Skipstjóri skútunnar sem kom að landi á Rifi um kl. 21 í kvöld var handtekinn við komuna þangað af lögreglunni á Vesturlandi. Hann var einn á ferð og er grunaður um að hafa tekið skútuna ófrjálsri hendi í Ísafjarðarhöfn síðustu nótt.
„Skipstjórinn mun verða yfirheyrður og rannsókn málsins heldur áfram,“ segir lögreglan á Vestfjörðum á Facebook-síðu sinni.
Þar eru ekki veittar frekari upplýsingar, en af þessari færslu lögreglu má ráða að maðurinn hafi verið einn um borð í skútunni, sem var um tíma í dag veitt eftirför af varðskipinu Þór og þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Fréttaritari mbl.is á Snæfellsnesi, Alfons Finnsson, gat ekki fengið upplýsingar um það hjá lögreglu á vettvangi hvort maðurinn væri íslenskur eða útlendur. Alfons segir að maðurinn hafi verið handtekinn áður en skútan kom til hafnar, en lögreglumenn sigldu út á móti skútunni á björgunarsveitarbáti.
Hann var tekinn höndum og færður að landi áður en skútunni var svo siglt inn í höfnina á Rifi.
Skútan ber heitið Inook og er 40 feta löng. Eigandi hennar er franskur og mun ekki vera staddur hérlendis.