2.000 klukkutímar vegna braggans

Bragginn í Nauthólsvík.
Bragginn í Nauthólsvík. mbl.is/Árni Sæberg

Yfir tvö þúsund klukkutímar fóru í verkefni tengd hönnun braggans í Nauthólsvík, samkvæmt reikningum sem Arkibúllan sendi eignasjóði Reykjavíkurborgar vegna hönnunarinnar.

Þetta kemur fram í frétt DV sem hefur bókhaldið sem tengist bragganum undir höndum. Þar kemur fram að það tók Margréti Leifsdóttur, arkitekt hjá Arkibúllunni, meira en 1.300 klukkutíma að hanna braggann. Það eru rúmlega 160 vinnudagar ef tekið er mið af átta klukkustunda vinnudegi án matar- eða kaffihlés.

Þar að auki fóru rúmlega 600 klukkutímar í umsjón og eftirlit með hönnuninni og 114 tímar í vettvangsferðir og fundi vegna hönnunarinnar.

Arkibúllan fékk 28 milljónir greiddar fyrir hönnunina en alls um 35 milljónir króna, að sögn DV, sem er önnur upphæð en kemur fram í yfirliti borgarinnar.

Reikningarnir sem Arkibúllan sendi eignasjóði Reykjavíkurborgar sýna að hönnunin hófst í desember árið 2015 og hélt hún áfram þangað til í mars síðastliðnum.

Fram kemur í grein DV að Margrét hafi kvittað upp á reikninga sem verktakar sendu Reykjavíkurborg. Í nokkrum tilvikum kvittuðu aðrir starfsmenn Arkibúllunnar upp á reikninga frá verktökum fyrir hönd hennar.

Í yfirlýsingu Arkibúllunnar frá því í síðustu viku kom fram að arkitektastofan hefði hannað enduruppbygginguna í samræmi við óskir kaupenda. Eftirlit Arkibúllunnar fólst í að fylgjast með því að iðnaðarmenn fylgdu teikningum og að verkin væru sannarlega unnin.

Einnig kom þar fram að Reykjavíkurborg hefði gert alla samninga við verktaka og bæri ábyrgð á gerð og eftirfylgni kostnaðaráætlana á öllum stigum framkvæmda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert