Afnema refsingar vegna ærumeiðinga

Eiríkur Jónsson, prófessor og formaður nefndar forsætisráðherra um umbætur á …
Eiríkur Jónsson, prófessor og formaður nefndar forsætisráðherra um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. mbl.is/Eggert

Afnema á refsingar vegna ærumeiðinga og fella út ómerkingu ummæla sem úrræði vegna ærumeiðinga samkvæmt tillögum nefndar um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Nefndin kynnti í dag tillögur sínar, en í heildina er um að ræða fimm frumvörp auk undirbúningsskjals vegna lagasetningar um áform um lagasetningu um vernd uppljóstrara.

Samkvæmt tillögunum verður auk þess núverandi heimild til þess að dæma fjárhæð til að standast kostnað af birtingu dóms afnumin. Í stað ærumeiðingarákvæða hegningarlaga er lagt til að sett verði ný stofnlög þar sem mælt er fyrir um einkaréttarleg úrræði til að bregðast við ærumeiðingum.

Gert er ráð fyrir tvenns konar úrræðum, miskabótum og bótum fyrir fjártjón. Við beitingu þeirra skuli höfð hliðsjón af sök, efni tjáningar og aðstæðum að öðru leyti. Þá inniheldur frumvarpið ábyrgðarleysisástæður, sem leysa undan ábyrgð í tilteknum tilvikum, en ákvæðum frumvarpsins er ætlað að ná utan um helstu sjónarmið sem lögð hafa verið til grundvallar í dómaframkvæmd mannréttindadómstóls Evrópu og stuðla að því að réttarframkvæmd verði til samræmis við þau sjónarmið.

Auk þess felst m.a. í frumvarpinu að hin sérstaka æruvernd sem opinberir starfsmenn hafa notið verði felld úr gildi, sem og hin sérstaka æruvernd sem erlend ríki, fáni þeirra, þjóðhöfðingi o.fl. hafa notið.

Þá leggur nefndin einnig til breytingu á almennum hegningarlögum um þrengingu ákvæðis um hatursorðræðu, breytingu á stjórnsýslulögum varðandi tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna, breytingu á lögum um rafræn viðskipti sem takmarka ábyrgð hýsingaraðila og svo að lokum breytingu á lögum um fjarskipti sem tekur til þess að skyldubundin gagnageymd fjarskiptafyrirtækja verði afnumin og að aðgengi lögreglu og ákæruvalds að gögnum fjarskiptafyrirtækja verði hert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert