Bæjarstjórn Reykjanesbæjar mun hvorki funda með fulltrúum Stakkbergs ehf. í dag né á morgun að sögn Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hafnaði í síðustu viku beiðni Stakkbergs um að vinna tillögu að deiliskipulagi á kísilverinu í Helguvík, en Stakkberg er félag í eigu Arion banka, sem keypti starfsemina í Helguvík af þrotabúi United Silicon.
Greindi mbl.is frá því að Þórður Ólafur Þórðarson, stjórnarformaður Stakkbergs, hefði í kjölfarið óskað eftir skýringum frá bæjarstjórn vegna málsins og vildi fund um málið í dag, til að sjá hvað mönnum þótti vanta upp á tillöguna.
„Það verður ekki af fundinum í dag eða á morgun, en það er bæjarstjórnarfundur á morgun þar sem að þetta mál verður til umræðu,“ segir Kjartan Már.
„Hvort að við hittum fulltrúa Stakkbergs eftir það, það má vel vera,“ bætti hann við en kvaðst ekkert geta sagt um það hversu mikil eða djúp umræða verði um málið annað kvöld.
Fulltrúar íbúasamtakanna Andstæðingar stóriðju í Helguvík hafa farið fram á að fá að vera viðstaddir fund Stakkbergs og bæjarstjórnar ásamt lögmanni samtakanna.