Lögin um að heimila ráðherra að veita fiskeldisfyrirtækjum rekstrarleyfi til bráðabirgða ganga hvorki í berhögg við lög um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála né ákvæði Árósasamningsins.
Kemur þetta fram í greinargerð með frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en lögin voru samþykkt í síðustu viku, að því er segir í Morgunblaðinu í dag.
Jón Þór Ólason, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, og Sif Konráðsdóttir, lögmaður og fyrrverandi aðstoðarmaður umhverfisráðherra, gagnrýndu lagasetninguna og málsmeðferð við hana í viðtalsþætti Bjartar Ólafsdóttur, Þingvöllum, á útvarpsstöðinni K100 í gærmorgun. Sif sagði að lögin græfu undan sjálfstæði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og Jón Þór sagði að lögfræðilega væri þetta stórslys.