„Þetta eru nokkur atriði sem ég þarf að kippa í liðinn,“ segir Árni Valur Sólonsson, eigandi Capital Hotels-hótelkeðjunnar, en Vinnueftirlitið bannaði á föstudag alla vinnu við byggingarframkvæmdir vegna stækkunar á einu hótela keðjunnar, City Park Hótel, Ármúla 5.
Við eftirlitsheimsókn Vinnueftirlitsins hjá City Park Hótel sl. föstudag kom í ljós að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna var ekki í samræmi við lög og reglur. Gerði Vinnueftirlitið athugasemdir við að öryggis- og heilbrigðisáætlun fyrir verkið væri ekki til staðar, að ganga þyrfti betur frá rafmagni, tryggja öryggi starfsmanna, ganga betur frá umferðarleiðum og fallvörnum og tryggja viðeigandi persónuhlífar starfsmanna.
Að sögn Árna er verið að byggja við hótelið 27 hótelherbergi, en fyrir voru herbergin 57. Hann segir að þeim atriðum sem Vinnueftirlitið gerði athugasemdir við verði kippt í lag og viðurkennir auðmjúkur að hann hafi greinilega ekki staðið rétt að öllum aðbúnaði.