„Það var gott að það var farið fram á að innri endurskoðun tæki út þessar framkvæmdir og viðhald við Írabakka,“ segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, um úttekt sem gerð var vegna umframkostnaðar við endurbætur á íbúðum Félagsbústaða við Írabakka í Reykjavík.
Stjórn Félagsbústaða samþykkti framkvæmdir fyrir 398 milljónir króna á árunum 2012 til 2016 en heildarkostnaðurinn reyndist að lokum 728 milljónir og nemur framúrkeyrslan því 83%. Framkvæmdastjóri Félagsbústaða, Auðun Freyr Ingvarsson, sagði af sér í kjölfar úttektarinnar.
Það var í maí 2016 að stjórn og framkvæmdastjóri Félagsbústaða óskuðu eftir því við innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að hún gerði úttekt á viðhaldsverkefni félagsins við Írabakka 2-16 á árunum 2012 -2016. Líf segir að henni hafi þótt þetta taka fulllangan tíma en er ánægð með skýra niðurstöðu.
„Mér þykir líka gott að vera í meirihluta sem er með vökul augu sem tekur á þessum málum strax frá upphafi,“ segir Líf.
Í ljósi umræðu síðustu daga í tengslum við Braggamálið, sem innri endurskoðun Reykjavíkurborgar á að ráðast í heildarúttekt á, segir Líf að þetta dæmi sýni að hún sé fullkomlega sjálfstæð eining og virki vel. „Þessu er svolítið snúið á haus í umræðunni en þetta er nákvæmlega hennar hlutverk. Innri endurskoðun hlífir engum og gagnrýnir það sem úrskeiðis fer.“
Hún segir að ný stjórn Félagsbústaða hafi strax hafist handa við að bæta verkferla og að hún beri fullt traust til stjórnarinnar til að gera þær úrbætur sem þurfi að ráðast í.
„Auðunn hefur skilað nokkuð góðu starfi og mér finnst virðingarvert hjá honum að axla þessa ábyrgð og segja upp,“ segir Líf og bætir við að það sé að hennar mati löngu tímabært að færa Félagsbústaði í nútímalegra form:
„Ég held að það sé orðið löngu tímabært að gera Félagsbústaði að nútímalegu félagi í eigu borgarinnar. Ég held að það sé verkefni þessa kjörtímabils.“