Nauðganir öflugt vopn í stríði

Yves Daccord, framkvæmdastjóri alþjóðaráðs Rauða krossins, flutti erindi í Háskóla …
Yves Daccord, framkvæmdastjóri alþjóðaráðs Rauða krossins, flutti erindi í Háskóla Íslands í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kynferðislegt ofbeldi á ekkert sammerkt með kynlífi heldur er það glæpur og er notað sem valdatæki segir Yves Daccord, framkvæmdastjóri alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) en hann flutti fyrirlestur í Háskóla Íslands í hádeginu á vegum Alþjóðamálastofnunar, Höfða friðarseturs og Rauða krossins á Íslandi.

Nauðgun er vopn í stríði og á ekkert skylt með kynlífi heldur er nauðgun öflugt vopn á átakasvæðum. Við sjáum það í Sýrlandi, Suður-Súdan og víðar, segir hann. Með kynferðislegu ofbeldi er reynt að granda fólki og sundra samfélögum. 

Í fyrirlestrinum fjallaði hann um baráttu Rauða krossins gegn kynferðislegu ofbeldi í átökum en hann segir beitingu kynferðislegs ofbeldis eitt það flóknasta þegar kemur að stríðsátökum. Erfitt sé fyrir þolendur að greina frá og oft fá þeir ekki það svigrúm sem þeir þurfa og aðstoð til að vinna úr sálrænum áhrifum af slíkri misnotkun. 

Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, og Davíð Logi Sigurðsson,sendiráðunautur …
Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, og Davíð Logi Sigurðsson,sendiráðunautur í utanríkisráðuneytinu, hlýddu á erindi Yves Daccord í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki til að drepa heldur til að tortíma

Því með því að nauðga þá er ekki tilgangurinn að drepa heldur tortíma manneskjunni. Að valda henni sem mestum kvölum. Nauðgun er ekkert sem gerist óvart því sá sem beitir ofbeldinu sem stríðstæki hefur alltaf valið. Að svipta viðkomandi mennskunni. 

Daccord segir að kynferðislegt ofbeldi hafi verið beitt lengi á átakasvæðum enn lítt ratað inn í dómsmál þar til fyrir nokkrum árum. Vitað er að nauðganir voru eitt stríðstækjanna í seinni heimstyrjöldinni án þess að menn hafi verið dæmdir fyrir það. Aftur á móti var farið að dæma stríðsglæpamenn fyrir kynferðislegt ofbeldi eftir stríðið í Rúanda og eins Bosníu. Þetta segi okkur eitthvað um breytta stöðu kvenna. Þær voru áður álitnar eign karlsins og ofbeldið hafi því verið vopn gegn karlinum. 

Nauðganir falið valdatæki

Hann segir að ef nauðganir kvenna og stúlkna sé falið vopn þá sé staðan enn verri þegar kemur að körlum og drengjum. Daccord segir að einn af hverjum fjórum föngum hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þetta sé hins vegar sára sjaldan rætt enda falið valdatæki. Konur og stúlkur sem verða fyrir slíku ofbeldi verða oft fórnarlömb útskúfunar ekki síst ef þær verða þungaðar eftir nauðgun.

Þegar tilkynnt var um handhafa friðarverðlauna Nóbels í ár kom fram að þau Nadia Murad, sem sætti kynferðisofbeldi liðsmanna Ríkis íslams í Írak, og Denis Mukwege, læknir í Austur-Kongó, hlytu verðlaunin fyrir baráttu gegn því að nauðgunum sé beitt sem stríðsvopni.

Nadia Murad og Denis Mukwege.
Nadia Murad og Denis Mukwege. AFP

Í ár eru 10 ár liðin frá því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun 1820, sem segir að beiting kynferðisofbeldis sem vopns í átökum sé bæði stríðsglæpur og ógn við friði og öryggi á alþjóðlegum vettvangi.

Nadia Murad er 25 ára og á meðal þúsunda stúlkna og kvenna úr röðum jasída sem liðsmenn Ríkis íslams rændu og nauðguðu í grimmilegum hernaði þeirra gegn trúarhópnum. Þeir rændu henni og hnepptu hana í ánauð eftir að þeir náðu þorpi hennar í norðvestanverðu Írak á sitt vald í ágúst 2014. Þeir drápu karlmennina sem þeir náðu, tóku börn til fanga í því skyni að þjálfa þau í hernaði og hnepptu konur í ánauð. Murad var í haldi þeirra í þrjá mánuði, gekk kaupum og sölum nokkrum sinnum og sætti hvað eftir annað barsmíðum og hópnauðgunum íslömsku öfgamannanna. „Það fyrsta sem þeir gerðu var að neyða okkur til að snúast til íslamskrar trúar. Eftir það gerðu þeir hvað sem þeir vildu við okkur,“ sagði hún.

Nicolas Roggo, frá alþjóðaráði Rauða krossins, Silja Bára Ómarsdóttir, lektor …
Nicolas Roggo, frá alþjóðaráði Rauða krossins, Silja Bára Ómarsdóttir, lektor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í stjórnum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Rauða krossins á Íslandi, en hún var fundarstjóri. Á milli þeirra situr Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nóbelsverðlaunanefndin sagði að Murad hefði sýnt „óvenjumikið hugrekki“ með því að segja frá þjáningum sínum og „neita að sætta sig við þær siðareglur í samfélaginu að konur eigi að skammast sín fyrir ofbeldið sem þær hafa sætt og þegja yfir því“.

Eftir að Murad slapp úr haldi íslamistanna í nóvember 2014 hóf hún baráttu fyrir réttindum jasída og gegn nauðgunum á stúlkum og konum sem vopni í hernaði.

Þurfti að flýja heimalandið

Denis Mukwege er 63 ára kvensjúkdómalæknir og mun hafa hjálpað um 30.000 konum og börnum sem hafa sætt kynferðisofbeldi í átökunum í Austur-Kongó síðustu tvo áratugi. Yngstu fórnarlömbin voru aðeins nokkurra mánaða þegar þeim var nauðgað.

Hann stofnaði sjúkrahús í héraðinu Suður-Kivu í austanverðu landinu árið 1999 og hefur verið kallaður „doktor Kraftaverk“. Hann hefur gagnrýnt hermenn stjórnvalda og uppreisnarmenn í Austur-Kongó fyrir kynferðisofbeldi gegn konum og börnum og lýst nauðgunum sem „gereyðingarvopni“ sem kollvarpi samfélaginu. Hann þurfti að vera í útlegð frá heimalandi sínu um tíma eftir að hann flutti ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem hann gagnrýndi stjórnvöld í Austur-Kongó fyrir að stöðva ekki kynferðisofbeldið. Hann hefur notið verndar friðargæsluliða samtakanna.

Atli Viðar Thorstensen frá Rauða krossinum, Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða …
Atli Viðar Thorstensen frá Rauða krossinum, Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, Kristján Kristjánsson, dagskrárgerðarmaður og Nicolas Roggo frá alþjóðaráði Rauða krossins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rödd Íslands mikilvæg

Yves Daccord kom inn á friðarverðlaunin í erindi sínu í Háskóla Íslands í dag en hann þekkir vel til Mukwege og starfa hans. Hann segir að í Austur-Kongó hafi ICRC komið á laggirnar úrræðum fyrir þolendur kynferðisleg ofbeldis þar sem reynt er að styðja þau og veita sálræna aðstoð. En betur má ef duga skal. Þetta sé hins vegar byrjunin, að gefa fórnarlömbum færi á að greina frá ofbeldinu og fá stuðning til þess að vinna úr áföllum. Enn vanti mikið upp á lagarammann í mörgum ríkjum heims þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi og að það sé refsivert. 

Daccord segir að rödd Íslands á sviði mannréttinda sé mikilvæg en Ísland á í fyrsta skipti aðild að mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Hann segir að raddir smærri ríkja eigi eftir að verða meira áberandi á sviði mannréttinda næstu árin. Ekki síst fyrir þær sakir að lönd eins og Bretland muni væntanlega draga mjög úr umsvifum sínum á þessu sviði vegna Brexit og eins og staðan er í Bandaríkjunum í dag er ekki von á miklu þaðan varðandi mannréttindamál og innilokunarstefna ríkir.

Framkvæmdastjóri alþjóðaráðs Rauða krossins vísar þar til utanríkisráðherra Íslands, Guðlaug­s Þórs Þórðarsonar, sem hefur vakið athygli fyrir málflutning sinn varðandi málefni Sýrlands og Jemen á alþjóðlegum vettvangi.

AFP

Líkt og lögfræðingar sem starfa hjá mannréttindaráði SÞ hafa bent blaðamanni mbl.is á þá hefur málflutningur Guðlaugs Þórs vakið mikla athygli en hann fjallaði meðal annars um mikilvægi þess að allt verði gert til að þrýsta á að þeir sem beri ábyrgð á voðaverkum í Sýrlandi og Jemen verði stöðvaðir í ræðu fyrir mannréttindaráðinu í febrúar.

Jafnframt talaði Guðlaugur Þór um mikilvægi þess að hjálp­ar­stofn­an­ir fái að veita mannúðaraðstoð. Heim­ur­inn geti ekki staðið hljóður hjá enn einu sinni þegar fjölda­morð eru fram­in um há­bjart­an dag. Þegar sak­laus­ar kon­ur, börn og karl­ar eru tek­in af lífi á handa­hófs­kennd­an hátt. 

Kynferðislegu ofbeldi er óhikað beitt á átakasvæðum enda öflugt vopn …
Kynferðislegu ofbeldi er óhikað beitt á átakasvæðum enda öflugt vopn ef tortíma á fólki. AFP

Verður tekin af lífi í nótt

Daccord kom einnig inn á málefni starfsmanna ICRC í Nígeríu í erindi sínu en óttast er að starfsmaður þeirra verði tekinn af lífi í nótt. 

Alþjóðaráð Rauða krossins hefur biðlað til ríkisstjórnar Nígeríu og áhrifamanna þar í landi til þess að reyna að koma að lausn tveggja heilbrigðisstarfsmanna sem var rænt fyrr á árinu í norðausturhluta Nígeríu. 

Hauwa Mohammed Liman, sem starfar fyrir ICRC og Alice Loksha, sem starfar hjá UNICEF í Nígeríu, var rænt 1. mars af félögum í vígasamtökunum ISWAP. Hauwa Mohammed Liman er 24 ára gömul og það á að taka hana af lífi í nótt nema hægt verði að koma í veg fyrir aftökuna. 

Saifura Hussaini Ahmed Khorsa, sem einnig starfaði hjá ICRC og var rænt ásamt hinum tveimur, var tekin af lífi af mannræningjunum í síðasta mánuði. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert