Sveitarstjórn Skútustaðahrepps mótmælir seinagangi vegna gistináttaskatts í ályktun sem var samþykkt á dögunum.
„Á fundi með þingmönnum kjördæmisins í síðustu viku kom fram að færsla gistináttaskatts frá ríkinu yfir til sveitarfélaga, eins og núverandi ríkisstjórn boðar í stjórnarsáttmála, er ekki á dagskrá þingsins í vetur. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps lýsir yfir miklum vonbrigðum með framgang málsins,“ segir í ályktuninni.
Þar leggur sveitarstjórnin áherslu á að sveitarfélögum á landinu verði tryggðar auknar tekjur af gistináttaskatti sem renni til sveitarfélaga með sama hætti og þekkist víða um lönd til að mæta útgjöldum vegna ferðaþjónustu. Einnig kemur fram að mikilvægt sé að skipting gistináttaskatts á milli sveitarfélaga verði með sanngjörnum hætti.
„Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru gistinætur í Skútustaðahreppi árið 2017 samtals 184.498 talsins. Því má áætla að ríkissjóður fái um 30-35 m.kr. í tekjur af gistináttaskatti sem sveitarfélagið verður þá af sem í staðinn gætu nýst hér á svæðinu í beina innviðauppbyggingu vegna ferðaþjónustunnar,“ segir í ályktuninni
Sveitarstjórnin skorar á Samband íslenskra sveitarfélaga að fylgja málinu fast eftir eftir gagnvart ríkisvaldinu enda séu miklir hagsmunir í húfi fyrir sveitarfélögin.