Enn eru til um 1.400 miðar á landsleik Íslands og Sviss í Þjóðadeildinni sem fer fram á Laugardalsvelli í kvöld.
Miðasalan fór hægt af stað en tók kipp á meðan vináttulandsleikur Frakklands og Íslands stóð yfir á fimmtudag. Eftir að Birkir Bjarnason skoraði fyrra mark Íslands í leiknum seldust til að mynda fleiri miðar en höfðu selst nokkurn annan dag síðan miðasalan hófst. Leiknum við ríkjandi heimsmeistara lauk að vísu með 2-2 jafntefli en íslenska þjóðin virðist ekki hafa misst trú á strákunum okkar.
Samkvæmt upplýsingum frá markaðs- og fjölmiðladeild KSÍ voru um 2.500 miðar eftir á leikinn fyrir helgi en eru þeir nú um 1.400. Það er því enn hægt að tryggja sér miða en miðasala fer fram á tix.is.
Leikurinn hefst klukkan 18:45 en sérstakt stuðningsmannasvæði (Fan Zone) verður í hátíðartjaldi Þróttar þar sem stuðningsmenn geta hitað upp fyrir leikinn og opnar svæðið klukkan 17.