Vilja láta rjúpuna njóta vafans

Heimilt er að veiða 67.000 rjúpur á þessu ári.
Heimilt er að veiða 67.000 rjúpur á þessu ári. Jón Sigurðarson

„Það er ljóst að við ofmetum rjúpnastofninn og það er skylda Náttúrufræðistofnunnar að hvetja til varfærni í tengslum við nytjar,“ segir Ólafur Nielsen, fuglafræðingar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Af þessum sökum hafi stofnunin ákveðið að miða rjúpnaveiðiráðgjöf sína við Vesturland í stað Norðausturlands eins og hefð sé fyrir.

Skot­veiðifé­lag Íslands (SKOTVÍS) sendi í gær frá sér yfirlýsingu í gær um að samtökin furði sig á ákvörðunum Nátt­úru­fræðistofn­un­ar um það hversu marg­ar rjúp­ur megi veiða á kom­andi vetri. Veiðikvót­inn hafi verið minnkaður um 33% á ein­um sól­ar­hring, frá sam­ráðsfundi um veiðarn­ar þar sem kynntar hafi verið tillögur upp á 89.000 fugla og þar til að til­lög­um Nátt­úru­fræðistofn­un­ar upp á 67.000 fugla var skilað til um­hverf­is- og auðlindaráðherra.

„Hvað breyt­ist á ein­um sól­ar­hring? Hvaða nýju gögn komu fram sem ekki voru kynnt á fund­in­um?” seg­ir í til­kynn­ingunni og er Nátt­úru­fræðistofn­un sögð hafa „brugðist trausti skot­veiðimanna með fram­komu sinni“.

Ráðlagður rjúpna­veiðikvóti í fyrra var 57.000 fugl­ar, en er í ár 67.000 fugl­ar, svo um er að ræða fjölg­un um tíu þúsund fugla á milli ára.

Viðkomubrestur í stofninum á Vesturlandi

Ólafur, sem hefur séð um vöktun rjúpna,  segir rétt að tillögur upp á 89.000 fugla hafi verið kynntar á fundinum. „Það voru útreikningar sem byggðu á gögnum fyrir Norðausturland,“ segir hann. Um allt vestanvert landið frá Suðurlandi, Suðvesturlandi og yfir á Vestfirði, hafi hins vegar verið viðkomubrestur.

„Eftir að ég kynnti niðurstöður vöktunarinnar þá var umræða hér innanhúss. Það er ljóst að við ofmetum stofninn og það er skylda Náttúrufræðistofnunnar að hvetja til varfærni í tengslum við nytjar. Þetta var því niðurstaðan að nota ekki viðkomuna fyrir Norðausturland, því hún muni gefa alltof háan stofn. Heldur myndum við vera varfærari í okkar ráðgjöf og miða við Vesturland.“

Almennt er miðað við gögn frá Norðausturlandi við útreikning stofnstærðar. Segir Ólafur sambærilega breytingu og nú varð, ekki hafa verið gerða áður frá samráðsfundi og þar til tillögum var skilað til ráðherra. „Þetta er líka í fyrsta skipti sem við sjáum þennan mikla mun milli landshluta,“ segir hann.

„Þetta er okkar röksemd að láta rjúpuna njóta vafans og vera varfærnir í okkar ráðgjöf frekar en glannalegir. Við vitum að með því að nota bara gögn fyrir Norðausturland þá erum við að ofreikna stofninn.“

Áttar sig ekki á reiðinni

Ólafur segir Náttúrufræðistofnun ekki vera að leyna neinu og hann átti sig ekki á reiðinni og ásökununum.

Það sé heldur ekki stofnunin sem taki hina endanlegu ákvörðun, heldur sé einungis um tilmæli að ræða. Ákvörðunarvaldið liggi hjá umhverfis- og auðlindaráðherra. „Ráðherra skorar síðan á menn að sýna hófsemi og drengskap í sínum rjúpnaveiðum.“

Hann tekur hins vegar undir með SKOTVÍS að rúm sé til að fjölga veiðidögum. „Jafnvel þessir fáu dagar sem eru núna, þeir vel fyrir ofan þá sókn sem er,“ segir hann en leyfilegur fjöldi veiðidaga eru 12. Segir Ólafur reynslu síðustu ára hafa sýnt að þó að dagafjöldinn hafi verið hækkaður í 20 daga undanfarin ár hafi það ekki áhrif á heildarsóknina.

Hinar þrjár stoðir veiðistjórnunnar þurfi hins vegar að vera til staðar — að veiðimenn sýni drengskap, hófsemi og að bannað sé að versla með dauðar rjúpur. „Þetta fyrirkomulag hefur gilt frá 1995 og hefur gjörbreytt formi nytjanna. „Við fórum úr kerfi sem einkenndist af mikilli veiði og græði og yfir í kerfi sem einkennist af hófsemi,“ segir Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka