Vilja rýmka tjáningarfrelsið

Eiríkur Jónsson, prófessor og formaður nefndar forsætisráðherra um umbætur á …
Eiríkur Jónsson, prófessor og formaður nefndar forsætisráðherra um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. mbl.is/Eggert

„Aðalmálið í öllum frumvörpunum er rýmkun tjáningarfrelsis,“ segir Eiríkur Jónsson, prófessor og formaður nefndar um umbætur á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis, við mbl.is. Nefndin kynnti tillögur að umbótum á þessum sviðum í Þjóðminjasafninu í dag.

Fimm lagafrumvörpum hefur verið skilað til ráðherra. Í fyrsta lagi er það frumvarp til laga um bætur vegna ærumeiðinga en þar er lagt til að refsingar vegna ærumeiðinga verði afnumdar. 

Í öðru lagi er það frumvarp sem leggur til þrengingu á refsingu við hatursorðræðu. Tjáningarfrelsi er rýmkað og lagt er til að gerð verði krafa um að háttsemi sé til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun; ekki einstök ummæli í reiðikasti.

Í þriðja lagi er lagður til nýr kafli í stjórnsýslulögum um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Það frumvarp felur í sér meginreglu um að opinberir starfsmenn njóti tjáningarfrelsis. Þá felur frumvarpið í sér að miklum fjölda þagnarskylduákvæða verði breytt í því skyni að fækka þeim og samræma. 

Í fjórða lagi er frumvarp um breytingar á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Með frumvarpinu er stefnt að rýmkun tjáningarfrelsis með því að draga úr ábyrgð hýsingaraðila og skyldu þeirra til að taka niður gögn. 

Í fimmta lagi eru breytingar á lögum um fjarskipti. Þar er annars vegar lagt til að skyldubundin gagnageymd fjarskiptafyrirtækja verði afnumin og hins vegar að skilyrði fyrir aðgangi lögreglu/ákæranda að gögnum fjarskiptafyrirtækja verði hert.

Auk þess skilaði nefndin af sér undirbúningsskjalinu áform um lagasetningu um vernd uppljóstrara. 

Meiðyrðalöggjöfin löngu úrelt

„Þarna erum við meðal annars að afnema refsingar vegna ærumeiðinga, koma meiðyrðalöggjöfinni í nútímahorf því hún er orðin löngu úrelt. Það er mælt fyrir um það í lögum að það megi setja menn í fangelsi í eitt ár fyrir að móðga,“ segir Eiríkur. Lagaumhverfnu hafi fylgt vandamál og ítrekað komið dómar frá Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem íslenskir dómar hafa verið taldir stangast á við 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu.

„Þarna er verið að stíga held ég mjög stórt skref með því að afnema refsingar og færa löggjöfina til samræmis við þessi nútímaviðhorf um tjáningarfrelsi,“ segir Eiríkur.

80 ákvæði um þagnarskyldu felld úr gildi

„Eins er þarna verið að skýra reglur um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Það er mjög mikilvægt því opinberir starfsmenn eru mjög margir, hafa mikla reynslu og þekkingu og tjáning þeirra því afar mikilvæg í hinni lýðræðislegu umræðu,“ segir Eiríkur og bætir við að vandamálið í dag séu fjölmörg og óskýr þagnarskylduákvæði.

„Starfsmenn hins opinbera kunna að fá þá tilfininngu að þeir fái ekki að tjá sig um neitt sem tengist starfi þeirra,“ segir Eiríkur en með frumvarpinu verða 80 ákvæði um þagnarskyldu felld úr gildi.

„Hugmyndin er í öllum þessum lögum verði vísað til stjórnsýslulaga. Það verði einn kafli þar sem fram komi að starfsmenn hafi heimild til að tjá sig um starfi sitt nema þagnarskylda eða trúnaðarskylda leiði til annars.“

Ekki eltast við ummæli manna í reiðikasti

Eiríkur telur að gengið hafi verið lengra en þjóðréttarskuldbindingar krefjast í málum er varða ærumeiðingar og hatursorðræðu. 

„Ríkið hefur nokkuð svigrúm hversu langt er gengið í að takmarka fordómafullar skoðanir. Ég held að það sé mikilvægara að við einbeitum okkur að eiginlegum hatursáróðri, sem sannarlega er til staðar, en séum ekki að virkja lögreglu og saksóknara til að elta einhver einstök ummæli þar sem menn í reiðikasti yfir frétt setja eitthvað á samfélagsmiðla en ekkert annað er í því. Menn eru þá ekki að taka þátt í skipulegri hatursorðræðu eða slíku.“

Birgitta Jónsdóttir fylgist með kynningunni í dag.
Birgitta Jónsdóttir fylgist með kynningunni í dag. mbl.is/Eggert

„Barnið“ hennar Birgittu

Starf nefndarinnar má rekja til frumkvæðis Birgittu Jónsdóttur, eins nefndarmanna, fyrrverandi þingmanns Pírata og núverandi stjórnarformanns International Modern Media Initiative. Hún lagði fram þingsályktun á sínum tíma en sjálf sagði Birgitta eftir kynninguna í dag að hún væri ánægð að sjá „barnið sitt“.

Eiríkur segir að stofnaður hafi verið stýrihópur um samþykkta þingsályktun Birgittu. Málið hafi síðan strandað, þangað til núverandi nefnd var stofnuð en þeirra vinna var að taka við þeim grunni sem búið var að gera.

„Upphafið að þessu öllu er þingsályktunartillaga Birgittu Jónsdóttur.“

Nefndin mun halda áfram störfum til 1. mars næstkomandi og skoða fleiri hluti, eins og lögbann til takmörkunar á tjáningu, en í því dæmi er hægt að nefna lögbannskröfu Glitnis HoldCo á umfjöllun Stundarinnar, sem Landsréttur hafnaði í byrjun mánaðar og staðfesti þar sem úrskurð héraðsdóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert