Að lifa og byggja í sátt við náttúru

Maria hoppandi kát eftir að vegghleðslunni í Noregi var lokið.
Maria hoppandi kát eftir að vegghleðslunni í Noregi var lokið. Ljósmynd/Aðsend

„Í mínum huga er byggingarlist gömlu íslensku torfbæjanna það sem koma skal. Torfhúsagerð er sú tegund arkitektúrs sem er í mestum tengslum við náttúruna og fær okkur mannfólkið til að skilja hvernig náttúran virkar,“ segir arkitektinn og hugsjónakonan Maria Jesus May sem fæddist og ólst upp í Santiago í Síle í Suður-Ameríku en býr núna í Patagóníu. Hún er stödd hér á landi öðru sinni til að læra um og tileinka sér fornar byggingaraðferðir.

„Við þurfum að hætta að einangra okkur frá náttúrunni eins og tíðkast í nútímabyggingum, þar sem við lokum samskeytum með sílikoni svo híbýli okkar anda ekki og eru fyrir vikið slæm fyrir heilsu okkar. Í ljósi breyttra aðstæðna í heiminum getur verið gott að horfa til eldri aðferða, við verðum að hætta að flytja byggingarefnivið um langan veg með tilheyrandi mengun, heldur nýta það sem til er í nærumhverfinu.“ 

„Ég kom fyrst til Íslands í fyrra af því ég vildi fara þangað sem væri svipað veður og landslag og er í Patagóníu. Ég fór því á torfhleðslunámskeið í Skagafirði og fór í framhaldinu í læri til Guðjóns Kristinssonar hleðslumeistara, en hann er einn af örfáum núlifandi meisturum í torfhleðslu í heiminum,“ segir Maria sem nú í seinni Íslandsheimsókn sinni kom aftur í læri til Guðjóns.

500 ára eik í góðu standi

„Ferðir mínar til Íslands eiga upphaf sitt í því að ég og kærastinn minn höfum verið að fara þangað sem við getum lært eitthvað nýtt í tengslum við okkar ástríðu og hugsjón, sem er að lifa og byggja í sátt við náttúruna. Undanfarin sjö ár höfum við verið hluti af verkefni innan þjóðgarðs í Patagóníu, þar sem við erum að rækta vistvænar matjurtir. Ætlunin er að vera líka með skepnur, því vistvæn ræktun matjurta krefst lífræns áburðar, sem kemur jú frá skepnum. Við sem byggjum þessa jörð verðum að fara vel með náttúruna og þjóna henni í stað þess að vinna gegn henni. Við erum að færa okkur út fyrir þjóðgarðinn með verkefnið og þurfum því að byggja hús, og þær byggingar vil ég að séu byggðar úr því efni sem tiltækt er þar úti í náttúrunni. Þess vegna vil ég læra að byggja torfhús. Við þurfum ekki alltaf að finna upp nýtt, heldur líta til baka til þeirra sem uppgötvuðu löngu á undan okkur og hefur sýnt sig að virkar. Mín ástríða er ekki aðeins að byggja úr náttúrulegum efnum í nærumhverfi, heldur vil ég byggja híbýli sem koma til með að endast í gegnum kynslóðirnar. Ég hef unnið í Wales við að laga steinhús frá miðöldum, þar sem fimm hundruð ára eik er enn í fínu standi. Þetta eru hús sem standast tímans tönn.“

Fór grátandi frá Íslandi

Maria segir það hafa verið góðan skóla fyrir sig að vera í læri hjá Guðjóni.

„Mitt fyrsta verk hjá honum var að skera torf í þrjár vikur, sem var æðislegt. Þetta var eins og hugleiðsla fyrir mig að vinna með líkamanum allan daginn, á einhvern hátt hreinsandi. Auk þess efldist minn líkamlegi styrkur mjög við þessa verklegu vinnu, og ég fylltist orku. Þegar ég var í læri hjá Guðjóni úti í Noregi í fyrra við vegghleðslu, þá rann það upp fyrir mér að þetta er það sem ég vil gera: Ég vil byggja úr náttúrulegum efniviði og vera sjálf úti í náttúrunni við mín störf,“ segir Maria sem fór grátandi frá Íslandi í fyrra, því hún þráði að vera lengur.

„Afar sjaldan í lífinu fyllist maður slíkri vissu. Ég var því staðráðin í því að koma aftur og kynna mér enn betur torfhúsagerð og aðrar gamlar byggingar sem hafa sannað sig í köldu veðurfari. Að afla mér reynslu með því að byggja sjálf, er langdýrmætast. Ég mun koma aftur til Íslands á næsta ári,“ segir Maria og brosir til Guðjóns sem situr til borðs með henni og ber henni vel söguna:

„Maria er orðin mjög flink að lyfta stórum steinum og leggja þá rétt í hleðsluna, þetta er ákveðin tækni sem þarf að tileinka sér. Hún er orðin fullfær í klömbruhleðslu en ég á eftir að kenna henni tvær aðferðir við hleðslur sem hún getur notað í Patagóníu. Hún verður fullnuma þegar ég hef líka kennt henni sniddu og grjóthleðslu,“ segir Guðjón og bætir við að Maria hafi komið aftur með honum til Noregs nú í sumar til að læra vegghleðslu þar sem þau gerðu innra byrðið fyrst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert