„Nú fer ég að kippa hlutunum í lag“

Brugðist hefur verið við athugasemdum Vinnueftirlitsins. Mynd úr safni.
Brugðist hefur verið við athugasemdum Vinnueftirlitsins. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eigandi City Park hótels segir að ekki hafi verið búið að skila inn öllum gögnum til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar til þess að fá byggingarleyfi og viðurkennir að ekki hafi verið rétt staðið að framkvæmdum við stækkun hótelsins við Ármúla 5. Árni Valur Sólonsson segir að teikningum verði skilað inn fyrir næsta þriðjudag.

Morgunblaðið og mbl.is greindu frá því í gær og í dag að Vinnueftirlitið hefði stöðvað vinnu á verkstað 12. október vegna þess að aðbúnaður, holl­ustu­hætt­ir og ör­yggi starfs­manna voru ekki í sam­ræmi við lög og regl­ur. Þá fór byggingarfulltrúi borgarinnar á vettvang í gær til þess að stöðva framkvæmdir, en ekkert byggingarleyfi var til staðar og ekki hafði verið sótt um það.

Að sögn Árna mun framkvæmdin uppfylla öll þau skilyrði sem þurfi til þess að fá byggingarleyfi. „Að sjálfsögðu. Við erum komnir með alla meistara og slíkt, það er allt í farvegi og í góðum málum.“

Hvað athugasamdir Vinnueftirlitsins varðar segir Árni að búið sé að bregðast við þeim öllum og unnið sé að öryggisáætlun. „Ég er ekki að gera alveg rétt og nú fer ég bara að kippa hlutunum í lag. Ég held að það verði ekkert vandamál.“

„Nú er það undir byggingarfulltrúanum komið hvenær framkvæmdir geta hafist aftur. Ef hann hefur ekkert út á málið að setja þá væntanlega gefur hann mér leyfi fyrir framkvæmdunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka