Saka formann framkvæmdaráðs Pírata um trúnaðarbrest

Frá aðalfundi Pírata sem haldinn var á Selfossi í lok …
Frá aðalfundi Pírata sem haldinn var á Selfossi í lok september. Ljósmynd/Píratar

Sindri Viborg, sem hefur starfað sem formaður framkvæmdaráðs Pírata, hefur sagt sig úr ráðinu sem og flokknum. Ásamt honum hafa þrír af tíu fulltrúum framkvæmdaráðsins sagt af sér. Eftir sitja sex fulltrúar ásamt áheyrnarfulltrúa. 

Vísir greinir frá því að afsögn Sindra tengist fólki innan aðildarfélagsins Píratar í Reykjavík sem saka Sindra um trúnaðarbrest í starfi. Sindri segist í samtali við mbl.is ekki vilja tjá sig um málið á meðan það er enn til umfjöllunar innan flokksins. Samkvæmt heimildum mbl.is ríkir mikill hiti meðal flokksmanna vegna málsins. 

Hinir sem hverfa úr framkvæmdaráðinu eru Halldór Auðar Svansson, Jón Gunnar Borgþórsson og Valgeir Helgi Bergþórsson. Hlutverk ráðsins er að annast almenna stjórn og rekstur félagsins.

Framkvæmdaráðið mun koma saman annað kvöld til að ræða þann vanda sem upp er kominn í ráðinu. Þá hefur verið boðað til félagsfundar á mánudag. Í fundarboðinu sem sent var á félagatal Pírata í gær segir að þeir sem eftir sitja í framkvæmdaráðinu séu allir af vilja gerðir til að leysa málin og eru þeir sem hafa sagt af sér velkomnir á fundinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert