Tvö mál dýrbíta hafa komið inn á borð lögreglunnar á Suðurlandi undanfarna daga, en mbl.is greindi frá því um helgina að hundur hafi gengið laus í Ölfusi fyrir um viku og drepið þar hóp fjár.
Fann bóndi á svæðinu dautt lamb á föstudag fyrir rúmri viku. Á laugardag ákvað umráðamaður fjárins að athuga aðstæður og fann þá sex dauðar kindur til viðbótar.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir annað málið varða tvo lausa hunda sem hafi verið við Ingólfsfjall. Var annar þeirra handsamaður og fluttur á dýraspítala til aflestrar á örmerki og var hann þar eftir þar til hefðist upp á eiganda hans sem myndi sækja hann.
Hitt málið varðar hins vegar atvik sem varð í Grafningi, en vegfarandi sem var þar á ferð hafði afskipti af hundum sem voru að atast í fé bónda þar. Voru hundarnir að sögn Odds „mjög ósáttir við afskipti vegfarandans“ og sneri hann því frá vettvangi.
Greint var frá því um helgina að sést hefði til hunds drepa þrjár kindur á um tíu mínútum á sunnudagsmorgun.
Segir Oddur athugun hafa leitt í ljós að hundarnir voru að atast í fé eiganda síns og tók bóndinn að sér að „ljúka því máli”.