Hafa greitt 32 milljónir fyrir aðkeypta vinnu

Alls hefur forsætisráðuneytið greitt 32.646.798 kr. vegna aðkeyptrar ráðgjafar, sérverkefna …
Alls hefur forsætisráðuneytið greitt 32.646.798 kr. vegna aðkeyptrar ráðgjafar, sérverkefna og verkefnastjórnar frá því að sitjandi ríkisstjórn tók við. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsætisráðuneytið hefur gert verksamninga um aðkeypta ráðgjöf, sérverkefni og verkefnisstjórn við 23 aðila frá því að sitjandi ríkisstjórn tók við. 8. október síðastliðinn hafði ráðuneytið greitt 32.646.798 kr. vegna tíu þessara samninga, en engar greiðslur höfðu verið inntar af hendi til hinna þrettán aðilanna.

Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. Verkefnin sem þessir 23 aðilar sinna fyrir ráðuneytið eru af ýmsum toga. Gjarnan um að ræða ráðgjöf eða vinnu í tengslum við lagabreytingar, til dæmis varðandi innleiðingu jafnlaunakerfis og umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis, svo eitthvað sé nefnt.

Þá hafa tvö fyrirtæki, Metadata og Analytica, veitt stjórnvöldum sérfræðiráðgjöf við gerð vefreiknilíkans um tekjuþróun á Íslandi og höfðu fyrirtækin tvö samtals fengið greiddar rúmar 7,5 milljónir króna fyrir það verkefni 8. október sl.

Hæstu greiðslur forsætisráðuneytisins fyrir aðkeypta þjónustu hafa þó farið til Kolbrúnar Halldórsdóttur, fyrrverandi þingmanns Vinstri grænna, en hún var ráðin til að sinna verkefnisstjórn vegna undirbúnings hátíðarhaldanna sem fram fara 1. desember í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Kolbrún hafði fengið 7,5 milljónir greiddar fyrir þau störf 8. október sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert