Aðeins tveir fengið skattskrána afhenta

Ríkisskattstjóri.
Ríkisskattstjóri. mbl.is/Ófeigur

Einungis tveir aðilar hafa fengið skattskrá allra Íslendinga yfir 18 ára afhenta frá ríkisskattstjóra og koma þannig til greina sem aðilarnar á bak við vefsíðuna tekjur.is „Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá starfsmönnum ríkisskattstjóra þá hafa bara tveir aðilar fengið þetta á pappír,“ segir Snorri Olsen ríkisskattstjóri í samtali við mbl.is.

Í frétt Morgunblaðsins í morgun sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður tekna.is, að umbjóðandi sinn hafi fengið gögnin afhent frá ríkisskattstjóra, komið þeim á rafrænt form  og síðan skilað þeim aftur.

Spurður um hvaða tveir aðilar þetta eru segir Snorri að ekki sé hægt að gefa það upp. „Nei við myndum ekki gera það. Það er ekki skráð opinberlega. Það gæti vel verið að menn gætu óskað eftir því á grundvelli upplýsingalaga en almennt erum við ekki að gefa upp hverjir eru með erindi hjá ríkisskattstjóra.

Þá er einnig möguleiki á að gögnin hafi farið frá þessum aðilum til einhvers annars. „Ég býst við því að Vilhjálmur sé að segja satt og þá hafi annar hvor af þessum aðilum fengið þetta hjá okkur á pappír og komið þessu áfram til þessa aðila eða stendur sjálfur á bak við þetta,“ segir Snorri.

Snýst um rafrænt birtingarform

Snorri segir að í gegnum tíðina hafi embættið alltaf hafnað að afhenda skattskrá Íslendinga í öðru formi en á pappír. „Við höfum afhent þetta á pappír til aðila sem hafa lýst því yfir að þeir ætli að gefa þetta út. Við höfum talið að það sé heimilt samkvæmt lögunum.“

Hann bendir á að margt hafi breyst frá því að lögin voru sett og nú sé komið annað birtingarform. 

„Þegar þessi lög voru sett, þá gáfu menn út hljómplötur á vínýl og bækur á pappír,  en nú er komið allt annað birtingarform. Það sem þarf að skýra í þessu sambandi: Er þetta bara nútíminn og eðlilegt? Eða þurfa menn að staldra við og velta fyrir sér hvort það þurfi að breyta lögunum? Í mínum huga snýst þetta um þetta nýja birtingarform,“ segir Snorri. 

Þegar blaðamaður spurði hvort hann gæti fengið eintak af skattskrá allra Íslendinga segir Snorri að samkvæmt eldri framkvæmd væri það líklegt. „Nú er málið komið á annað plan og þú yrðir væntanlega spurður mun nánar út í það hvað ætlar að gera við skrána. Fram að þessu hefur ríkisskattstjóri talið það heimilt að prenta hana og gefa hana út þannig. Ef þú segir að þú ætlir að prenta hana og gefa hana út þá býst ég við að þú fengir hana að óbreyttri framkvæmd,“ segir Snorri og bætir við að ólíklegt væri að skráin yrði afhent til netbirtingar.

Hann segir að embættið verði líklegast búið að komast að niðurstöðu um hvort slík netbirting sé lögmæt áður en næsta skattskrá verður gefin út og bætir við að væntanlega verði löggjafinn búinn að fjalla um þessi mál áður og setja eðilegar reglur um framkvæmdina fyrir þann tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert