Sölvi Blöndal, efnahagsráðgjafi hjá Gamma, segir útlit fyrir „einhvers konar leiðréttingu“ á verði dýrari íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Ólíklegt sé að nafnverðið hækki meira.
Gamma og dótturfélög hafa verið umsvifamikil á byggingarmarkaði síðustu ár. Þá m.a. á leigumarkaði.
Sölvi segir áherslu Reykjavíkurborgar á að þétta byggð hafa leitt til hærra íbúðaverðs. Það sé enda 30-50% dýrara að byggja á þéttingarreitum en á nýbyggingarsvæðum. Verktakar hafi brugðist við auknum kostnaði með því að byggja íbúðir fyrir efnameira fólk. Nú séu vísbendingar um mettun á þeim markaði.
Hækkandi fasteignaverð hefur ýtt undir verðbólgu undanfarið. Fari verðið að standa í stað gæti það vegið gegn öðrum verðbólguþrýstingi. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir tvo óvissuþætti mögulega geta lækkað íbúðaverð. Annars vegar ef íbúðum fækki sem leigðar séu til ferðamanna og hins vegar ef hluti erlenda vinnuaflsins flytji af landi brott.