Ríkisskattstjóri afhenti Tekjum.is eintak af skattskrá allra Íslendinga á pappír sem Tekjur.is færðu yfir á rafrænt form og skiluðu síðan aftur.
Þetta kemur fram í svari Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, lögmanns og talsmann Tekna.is við fyrirspurn Morgunblaðsins um hvernig gögnin voru fengin. „Skráin var aðgengileg hjá Ríkisskattstjóra, sem afhenti eintak af henni á pappír sem var svo skilað aftur [...] RSK afhenti skrána á pappír, en upplýsingar voru færðar yfir á rafrænt form. Gögnin eru þannig eðlilega fengin,“ segir í svari Vilhjálms.
Á vefnum Tekjur.is er hægt að fletta upp tekjum og skattaupplýsingum allra Íslendinga 18 ára og eldri, gegn greiðslu áskriftargjalds, en Viskubrunnur ehf. er rekstraraðili síðunnar. Vilhjálmur vildi ekki gefa upp hversu margir hefðu keypt áskrift að síðunni þegar Morgunblaðið spurðist fyrir og sagði það vera trúnaðarmál. Ingvar Smári Birgisson, lögfræðingur og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, krafðist lögbanns á Tekjur.is í vikunni en í samtali við mbl.is telur Vilhjálmur að þeirri kröfu verði hafnað.
Spurður um almenn viðbrögð segir Vilhjálmur að verkalýðshreyfingin hafi verið meðal þeirra sem hafa fagnað síðunni. „Viðbrögð almennings hafa almennt verið góð. Umbjóðandi minn hefur fengið fjölda pósta frá fólki sem lýsir yfir ánægju sinni með verkefnið, en líka frá aðilum sem eru ósáttir. Það var vitað fyrirfram að ekki yrðu allir ánægðir, en það hefur t.d. komið eindreginn stuðningur við verkefnið frá lykilaðilum í verkalýðshreyfingunni sem hafa fagnað þessu framtaki.“
Spurður um hvort stendur til að færa nýrri upplýsingar um tekjur Íslendinga inn fyrir áskrifendur segir Vilhjálmur að stefnt sé að því. „Umbjóðandi minn stefnir að því að uppfæra gögnin þegar ný skattskrá verður gefin út. Þó ræðst það væntanlega af viðbrögðunum nú og hvort tekst að standa undir kostnaði við uppsetningu og rekstur vefsíðunnar.“