Fulltrúi frá franska samgöngulausnafyrirtækinu Alstom ræddi á fundi um borgarlínu í dag. Fyrirtækið hannar kerfi bæði fyrir rafdrifna strætisvagna og léttlestir en það var fransk-íslenska viðskiptaráðið sem stóð fyrir fundinum og hann sóttu m.a. fulltrúar frá sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu.
Nicolas Andrieux, viðskiptaþróunarstjóri Alstom, hefur áður komið hingað til lands til að kynna sér fyrirætlanir um borgarlínu. Fyrirtækið sem á sér langa sögu hefur komið að uppbyggingu á léttlestarkerfum í borgum víða um heim og hannaði til að mynda Eurostar-lestina undir Ermarsundið.
Fjölmargar millistórar borgir í Frakklandi, með íbúafjölda 200-300 þúsund íbúa, hafa á undanförnum árum byggt upp almenningssamgöngur. Þar segir hann að notkun á almenningssamgöngum aukist um 20% eða meira. Andrieux segir jafnframt að sín reynsla sé að mun auðveldara sé að fá fólk til að færa sig úr bílum sínum yfir í léttlestir eða lestir en yfir í rafvagna. Sem hann kallar „tramway-effect“ eða léttlestar-áhrifin.
Án þess að vilja tala of mikið um hvernig standa ætti að málum hér á landi segir Andrieux þó að hagkvæmast sé að hanna samgöngukerfi í heild sinni. Því væri hagstæðara að hanna borgarlínu samhliða lestarlínu til Keflavíkurflugvallar sé ætlunin að fara út í bæði verkefnin. Þá segir hann að 80 milljarðar ættu að duga til að byggja upp léttlestarkerfi á höfuðborgarsvæðinu.
Í myndskeiðinu er rætt stuttlega við Andrieux.