Samkomulag hefur náðst á milli lífeyrissjóðsins Lífsverks og félagsins Íbúðir eldri borgara í Mörk ehf., sem er í eigu Grundar, um fjármögnun á allri nýframkvæmd félagsins á Suðurlandsbraut 68-70.
Aðkoma lífeyrissjóðsins að uppbyggingunni tryggir sjóðfélögum forgang að hluta íbúðanna. Um er að ræða 74 nýjar íbúðir sem hafa þegar verið reistar en þær eru nú allar í útleigu. Samningurinn felur aftur á móti í sér að næstu 10 íbúðir sem losna muni ganga til sjóðfélaga Lífsverks.
Eftir það fara næstu 10 til annarra á biðlista en því næst taka við 10 íbúðir þar sem sjóðfélagar Lífsverks verða aftur í forgangi. „Þetta er ágætt fyrirkomulag en allir sjóðfélagar sem eru 60 ára og eldri geta sótt um íbúðir í húsnæðinu. Af tæplega 5.000 sjóðfélögum okkar eru aðeins 419 þeirra á ellilífeyrisaldri. Fleiri eru sannarlega 60 og eldri en þarna getum við þjónustað hluta þeirra og jafnvel stóran hluta þeirra sem vilja nýta sér þjónustu af þessu tagi,“ segir Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Lífsverks, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.